Erlent

Páfinn segir mikil­­vægt að hlusta á þol­endur kyn­­ferðis­of­beldis

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Nær fimm þúsund börn hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar í Portúgal frá árinu 1950. 
Nær fimm þúsund börn hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar í Portúgal frá árinu 1950.  EPA

Frans páfi sat í gær fund með þrettán einstaklingum sem öll eiga það sameiginlegt að vera þolendur kynferðisofbeldis klerka innan kaþólsku kirkjunnar. Í kjölfarið sagði hann það það mikilvægt að hlýða á raddir fórnarlambanna. 

Fundurinn fór fram í Portúgal þar sem Frans er nú staddur. Í tilkynningu frá Vatíkaninu segir að á fundinum hafi hlustun verið í fyrirrúmi. Í messu í Lissabon um kvöldið sagði hann að kirkjan yrði að hlusta á „angistaróp þolenda“.

Í frétt BBC kemur fram að meira en 4800 börn hafi verið misnotuð innan kaþólsku kirkjunnar í Portúgal frá árinu 1950, þar af 564 af prestum eða öðrum embættismönnum, samkvæmt skýrslu sem unnin var á ráðstefnu biskupa í Portúgal í febrúar. Forseti ráðstefnunnar sagði þær tölur algjört lágmark og líklega væri tala þolenda mun hærri. 

Á síðustu árum hafa rannsóknarskýrslur leitt í ljós gífurlegan fjölda kynferðisbrotamála innan kaþólsku kirkjunnar, sem hefur orðið uppvís að því að hylma yfir barnaníð og annað ofbeldi innan hennar. 

Í skýrslu sem birt var árið 2021 kom fram að um það bil 216 þúsund börn höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi af kaþólskum prestum í Frakklandi frá árinu 1950. Síðastliðinn júlí var greint frá því að kaþólska kirkjan á Spáni hefði afhjúpað nær þúsund meinta gerendur kynferðisofbeldis innan kirkjunnar sem höfðu brotið af sér á sama tímabili.

Þá greindi kaþólska kirkjan á Nýja-Sjálandi frá því í febrúar á þessu ári að um fjórtán prósent vígðra embættismanna innan kaþólsku kirkjunnar hafi verið sakaðir um kynferðisofbeldi frá árinu 1950. 


Tengdar fréttir

Á þriðja hundrað þúsund börn mis­notuð af kaþólskum prestum

Um það bil 216 þúsund börn hafa verið mis­notuð af kaþólskum prestum í Frakk­landi frá árinu 1950. Óttast er að fjöldi barna gæti náð 330 þúsund þegar mis­notkun af hálfu annarra með­lima kirkjunnar er tekin inn í myndina. Þetta er niður­staða nýrrar rann­sóknar­skýrslu sem birt var í dag.

Hundruð fórnar­lamba kaþólskra presta á Spáni

Rannsókn kaþólsku kirkjunnar á Spáni á misnotkun presta og annarra þjóna kirkjunnar á börnum hefur afhjúpað 728 meinta gerendur og 927 fórnarlömb frá fimmta áratug síðustu aldar. Meira en helmingur meintra gerenda voru prestar en flest brotin áttu sér stað á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×