Erlent

Segist við góða heilsu

Samúel Karl Ólason skrifar
Mitch McConnell á blaðamannafundi í gær.
Mitch McConnell á blaðamannafundi í gær. AP/J. Scott Applewhite

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, segist hafa heilsu til að sinna starfi sínu. Það er eftir að hann fraus í miðri setningu á blaðamannafundi í gærkvöldi og starði áfram í um tuttugu sekúndur, áður en hann var leiddur á brott.

Hann sneri þó aftur skömmu síðar og svaraði spurningum blaðamanna, án þess þó að segja hvað hefði komið fyrir. Seinna í gærkvöldi sagði aðstoðarmaður hans að hann hefði fengið svima og því hefði hann stigið til hliðar í augnablik.

Sjá einnig: Fraus í miðri setningu og var teymdur út af blaða­manna­fundi

McConnell, sem er 81 árs, sagði svo frá því í gærkvöldi að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefði hringt í sig og spurt sig hvernig hann hefði það. Þingmaðurinn sagðist hafa það gott, samkvæmt frétt Washington Post.

Hann vildi ekki svara spurningum um nákvæmlega hvað hefði komið fyrir eða segja hvort hann hefði hitt lækni eftir atvikið.

„Ég er við góða heilsu. Það er það sem skiptir máli,“ sagði hann.

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.

Eftir þingkosningarnar í fyrra hækkaði meðalaldurinn í öldungadeild Bandaríkjaþings úr 64,8 árum í 65,3. Meðalaldurinn í fulltrúadeildinni lækkaði úr 58,9 í 58,4 samkvæmt Pew Research.

McConnell féll fyrir um fjórum mánuðum síðar á kvöldverði á hóteli í Washington DC. Þá fékk hann heilahristing og braut eitt rifbein. Í kjölfarið var hann í fríi frá störfum í tæpar sex vikur. Hann er gífurlega áhrifamikill vestanhafs.

Í frétt Washington Post segir að hann hafi nokkrum sinnum lent í vandræðum undanfarna tvo mánuði. Þegar hann var barn fékk hann lömunarveiki og hefur hann því alltaf verið með óhefðbundið göngulag. McConnell hefur þó virst sérstaklega varkár að undanförnu og hefur hann sömuleiðis nokkrum sinnum ekki heyrt spurningar blaðamanna á blaðamannafundum.

Í síðasta mánuði þurfti annar öldungadeildarþingmaður að halla sér að honum og útskýra spurningu blaðamanns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×