Erlent

Rússar skemmdu bandarískan dróna með blysum

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússneskum herþotum flogið yfir bandarískum dróna yfir Sýrlandi.
Rússneskum herþotum flogið yfir bandarískum dróna yfir Sýrlandi.

Rússneskir flugmenn tveggja orrustuþota eru sagðir hafa skemmt bandarískan dróna yfir Sýrlandi með því að varpa blysum á hann. Atvikið átti sér stað þann 6. júlí en flugher Bandaríkjanna birti myndband af því í dag.

Bandaríkjamenn segja að þetta tilvik sé annað af tveimur, þar sem rússneskir flugmenn höguðu sér með sambærilegum hætti, á einum sólarhring.

Á myndbandinu sem birt var í dag má sjá tvær rússneskar herþotur af gerðinni Su-34 og Su-35, þar sem þeim er flogið yfir bandarískum dróna af gerðinni MQ-9. Þá má sjá blysum varpað úr annarri þotunni.

Blys þessi eru við hefðbundnar aðstæður notuð til að rugla sérstaka gerð flugskeyta í rýminu. Markmiðið er að fá þau til að elta blysin en ekki orrustuþoturnar. Bandaríkjamenn segja að eitt blys hafi farið í hreyfil drónans og skemmt hann en hægt hafi verið að lenda honum í heilu lagi.

Skammt er síðan sambærilegt atvik átti sér stað yfir Svartahafi en þá reyndu rússneskir flugmenn að varpa eldsneyti á bandarískan dróna. Ein orrustuþotan lenti þó á drónanum og skemmdi hann, svo dróninn endaði í hafinu, um þrjátíu sjómílur frá ströndum Úkraínu.

Sá dróni var einnig af gerðinni MQ-9.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×