Erlent

Að minnsta kosti 230 létust í píla­gríms­förinni til Mekka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þúsundir við Kaaba í Mecca.
Þúsundir við Kaaba í Mecca. AP/Amr Nabil

Yfir 2.000 manns eru sögð hafa þjáðst af hitatengdum kvillum á meðan Hajj-pílagrímaförinni stóð. Um 1,8 milljón múslíma er sögð hafa farið pílagrímsförina en hitinn fór upp í allt að 48 stig.

Fjöldi eldri einstaklinga er sagður hafa tekið þátt að þessu sinni, eftir að aldurstakmörk sem tekin voru upp í kórónuveirufaraldrinum voru felld niður.

Fólk var hvatt til að halda sig sem mest í skugga og drekka mikið af vatni. 

Yfirvöld í Sádi Arabíu hafa ekki gefið út hversu margir létust en samkvæmt upplýsingum frá einstaka ríkjum voru þeir að minnsta kosti 230, þar af 209 frá Indónesíu.

Eko Hartono, konsúll Indónesíu í Sádi Arabíu, segir hins vegar að flestir þeirra hafi látist af völdum hjarta- og öndunarfærasjúkdóma, ekki vegna hitans.

Elsti pílagríminn frá Íran, 114 ára, lést af völdum hjartaáfalls. Þá létust átta Alsírmenn, átta Egyptar og fjórir Marokkómenn.

Hitinn var aðalvandamál pílagrímsfararinnar að þessu sinni en áður hefur fjöldi látist eftir að hafa orðið undir í mannþrönginni og þá hafa árásir verið gerðar á viðburðinn í gegnum tíðina.

Yfirvöld eru búin undir hið óvænta og setja jafnan upp nokkra spítala í tengslum við viðburðin og og senda þúsundir bráðaliða á vettvang.

Umfjöllun Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×