Erlent

Ferða­maður skar nafn unnustu sinnar á vegg Kólos­seum

Atli Ísleifsson skrifar
Ivan og Haley voru í Rómarborg á dögunum.
Ivan og Haley voru í Rómarborg á dögunum. Twitter/Gennaro Sangiuliano

Menningarmálaráðherra Ítalíu vill að ferðamanni sem skar nafn sitt og unnustu sinnar á vegg hringleikahússins Kolossum í Róm verði refsað. Myndband var tekið af manninum þar sem hann skar nafnið og það birt á samfélagsmiðlum.

Menningarmálaráðherranum Gennaro Sangiuliano er á engan hátt skemmt yfir hátterni mannsins og hefur hvatt til þess að borin verði kennsl á manninn og honum refsað.

Sangiuliano segir í færslu á Twitter að hann telji þetta mjög alvarlegt, ósæmilegt og merki um mikinn dónaskap að vanvirða einn frægasta stað í heimi með þessum hætti.

„Ég vona að hver sá sem stóð fyrir þessu verði fundinn og honum refsaði í samræmi við lög,“ segir Sangiuliano.

Með tísti ráðherrans fylgdi mynd af hinum unga ferðamanni og myndband sem sýnir hvernig hann beitti lykli til að skera nafn sitt og unnustu sinnar á einn vegginn á hinu nærri tvö þúsund ára hringleikahúsi, einu helsta kennileiti Rómarborgar.

ANSA segir frá því að maðurinn hafi skorið „Ivan+Haley 23“ í vegginn en atvikið átti sér stað síðastliðinn föstudag.

Maðurinn gæti átt yfir höfði sér 15 þúsund evra sekt vegna athæfisins, um 2,2 milljónir króna, eða allt að fimm ára fangelsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×