Erlent

Reyna að tæla Indverja frá Rússum

Samúel Karl Ólason skrifar
Narendra Modi með þeim Jill og Joe Biden við Hvíta húsið í gær.
Narendra Modi með þeim Jill og Joe Biden við Hvíta húsið í gær. AP Photo/Evan Vucci

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, er nú staddur í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum. Þar hefur honum verið boðið að kaupa háþróuð vopn, dróna og orrustuþotur, eins og Indverjar hafa lengi reynt að kaupa frá Bandaríkjunum.

Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa hins vegar ekki viljað gera það vegna sambands Indlands og Rússlands og umfangsmikilla vopnakaupa Indverja af Rússum. Bandaríkjamenn vilja hins vegar nú reyna að tæla Indverja frá Rússum og sporna gegn áhrifum Kína.

Indverjar hafa lengi átt í góðum samskiptum við Rússa. Það samband hefur þó beðið hnekki vegna aukinna samskipta Rússa við Kína, samkvæmt AP fréttaveitunni. Indverjar og Kínverjar hafa lengi eldað grátt silfur saman. Washington Post segir heimsókn Modi til Washington DC meðal annars ætlað að senda Kínverjum skilaboð.

Yfirvöld á Indlandi hafa hingað til neitað að fordæma innrás Rússa í Úkraínu og hafa neitað að taka þátt í refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi.

Samkvæmt heimildum Wall Street Journal verður kaupsamningurinn opinberaður í dag í heimsókn Modi til Hvíta hússins, þar sem hann mun meðal annars snæða með Joe Biden, forseta Bandaríkjanna. Þá segir miðillinn einnig að ráðamenn ríkjanna séu að ræða aukin samskipti milli herja Bandaríkjanna og Indlands. Að bandarískum herskipum yrði oftar siglt til Indlands og heraflar ríkjanna gætu haldið fleiri sameiginlegar æfingar.

Fá aðgang að leynilegri tækni

Indverjar hafa lengi viljað kaupa MQ-9B Reaper dróna af Bandaríkjamönnum en samkvæmt heimildum WSJ fá þeir nú að kaupa á þriðja tug þeirra fyrir um þrjá milljarða dala.

Ráðamennirnir eru einnig sagðir hafa gert samkomulag um sameiginlega framleiðslu á F414 hreyflum fyrir nýjar indverskar herþotur. Það eru leynilegir hreyflar sem Bandaríkjamenn framleiða meðal annars fyrir F-18 orrustuþotur. Það að deila eigi tækninni með Indverjum þykir til marks um aukið traust milli ríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×