Innlent

„Við búumst ekki við neinni við­varandi lækkun á hús­næðis­verði“

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Hildur Margrét Jóhannsdóttir hagfræðingur hjá Landsbankanum segist ekki sjá neinar verulegar lækkanir á íbúðaverði í kortunum. 
Hildur Margrét Jóhannsdóttir hagfræðingur hjá Landsbankanum segist ekki sjá neinar verulegar lækkanir á íbúðaverði í kortunum. 

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram að hækka fjórða mánuðinn í röð og nam hækkunin milli apríl og maí 0,7 prósentum. Hagfræðingur hjá Landsbankanum segir hækkanirnar þó ekkert í líkingu við þær sem voru fyrir ári þegar vextir voru lágir og eftirspurn í hámarki.

Í kringum áramót, nóvember, desember og janúar, varð lengsta samfellda lækkun íbúðaverðs síðan undir loks árs 2009 að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans. Hildur Margrét Jóhannsdóttir, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir markaðinn nú hafa tekið við sér. „Það sýnir okkur kannski að markaðurinn hefur ekki kólnað jafn hratt og hefði mátt ætla miðað við það hversu hátt vaxtarstigið er orðið og lánshæfisskilyrðin þrengri,“ segir Hildur Margrét. Þessi flóknu lánshæfisskilyrði fyrir einstaklinga hafi þó haft mikil áhrif.



„Eftirspurnin er mun minni. Það sést til dæmis á því hversu mikið veltan hefur dregist saman undirritaðir kaupsamningar í maí voru um það bil 40 prósentum færri en í maí í fyrra. Það sem kannski vegur á móti og hefur haldið verðinu uppi er bara hversu þörfin á húsnæði er mikil. Landsmönnum hefur aldrei fjölgað jafn mikið og í fyrra og núna á fyrsta ársfjórðungi þannig það er bara enn þá eftirspurn eftir húsnæði og verður áfram,“ segir Hildur. Það haldi lífi í markaðnum þrátt fyrir skertu aðgengi að lánsfé.

Hildur Margrét á ekki von á viðvarandi lækkun á húsnæðisverði á næstunni. Sambærilegar lækkanir og áttu sér stað í kringum áramót séu þó mögulegar á milli mánaða. „En við búumst ekki við neinni viðvarandi lækkun á húsnæðisverði.“ 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×