Fótbolti

Biðu í margar klukku­stundir eftir Ron­aldo: „Má ég fá treyjuna þína“

Aron Guðmundsson skrifar
Þessi ungi íslenski stuðningsmaður Ronaldo hafði lagt mikið á sig
Þessi ungi íslenski stuðningsmaður Ronaldo hafði lagt mikið á sig Vísir/Samsett mynd

Segja má að algjört Ronaldo-æði hafi gripið um sig í Reykjavík í gær í tengslum við leik portúgalska landsliðsins við það íslenska í undankeppni EM í fótbolta á Laugardalsvelli.

Nokkrum klukkustundum áður en flautað var til leiks höfðu ungir íslenskir aðdáendur porúgölsku knattspyrnugoðsagnarinnar Cristiano Ronaldo komið sér fyrir utan Grand Hótel í Reykjavík, þar sem portúgalska landsliðið hélt til á meðan á dvöl liðsins á Íslandi stóð, í von um að bera leikmanninn augum. 

Einn þessara aðdáanda hafði lagt mikið á sig, sá skartaði Real Madrid treyju sem var merkt Ronaldo en leikmaðurinn er goðsögn í sögu félagsins eftir tíma sinn þar. 

Þessir ungu menn höfðu beðið í yfir fjórar klukkustundir eftir Ronaldo fyrir utan Grand HótelVísir/Sigurjón Ólason

Þessi ungi stuðningsmaður hafði lagt mikið á sig til þess að reyna fá treyju frá leikmanninum, búið til heimagert skilti á portúgölsku og skilaboðin voru einföld: 

„Má ég fá treyjuna þína Ronaldo“ 

Slík eru áhrif portúgölsku stjörnunnar að margir af þessum ungu íslenskum stuðningsmönnum héldu bara alls ekki með Íslandi í leik liðanna í gærkvöldi. 

Leiknum lauk með 1-0 sigri Portúgal og var það téður Ronaldo sem skoraði sigurmarkið undir lok leiks. Þetta var 200. leikur Ronaldo fyrir portúgalska landsliðið og með því setti hann heimsmet í karlaflokki yfir flesta spilaða A-landsleiki í fótbolta.

Fyrir leik var mikil athöfn þar sem fulltrúar portúgalska og íslenska knattspyrnusambandsins færðu Ronaldo gjöf á tímamótunum, þá hlaut hann staðfestingu frá Heimsmetabók Guiness á heimsmeti sínu.  


Tengdar fréttir

Hljóp inn á völlinn og knúsaði Ronaldo

Ungur drengur hljóp inn á Laugardalsvöll að loknum leik Íslands og Portúgal. Drengurinn hljóp í átt að Cristiano Ronaldo og hoppaði í fangið á honum. Í kjölfarið fékk hann svo mynd með kappanum sem skoraði sigurmarkið gegn Íslandi.

Albert: Finnst við vera að byggja eitthvað

Albert Guðmundsson var svekktur en samt nokkuð ánægður með frammistöðu íslenska liðsins gegn Portúgal í kvöld. Hann segir hægt að byggja á frammistöðu liðsins í þessum landsliðsglugga.

Ronaldo heiðraður á Laugardalsvelli

Cristiano Ronaldo fékk afhenta viðurkenningu fyrir leik Íslands og Portúgals sem nú er í gangi. Ronaldo er að leika sinn tvöhundruðasta landsleik á ferlinum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×