Erlent

Ís­lensk kona al­var­lega særð eftir stungu­á­rás í Lundi

Atli Ísleifsson skrifar
Dómkirkjan í Lundi er helsta kennileiti þessa háskólabæjar í suðurhluta Svíþjóðar.
Dómkirkjan í Lundi er helsta kennileiti þessa háskólabæjar í suðurhluta Svíþjóðar. Getty

Íslensk kona um fimmtugt var flutt alvarlega særð á sjúkrahús eftir að hafa verið stungin með hníf á heimili í Lundi í suðurhluta Svíþjóðar á laugardag. Maður sem tengist konunni var handtekinn á hverfishátíð í grenndinni skömmu eftir árásina en sleppt í gærkvöldi. Hann er ekki lengur grunaður um árásina.

Joakim Nyberg hjá sænsku lögreglunni staðfestir í samtali við fréttastofu að konan sé íslensk og um fimmtug að aldri. Samkvæmt heimildum fréttastofu er konan á 49. aldursári.

Í frétt SVT kemur fram að lögregla hafi fengið tilkynningu um árásina um klukkan 15:20 að staðartíma á laugardag. Lögregla hafi þá komið að konunni sem hafi verið alvarlega særð og mikið hafi blætt úr henni.

Haft er eftir sjónarvottum að hávær óp hafi heyrst frá staðnum áður en lögreglu og sjúkralið bar að garði.

Fram kemur að 45 ára karlmaður hafi verið handtekinn á hverfishátíð í hverfinu Östra Torn skömmu eftir árásina og að hann hafi þekkt konuna. „Ég get ekki greint nánar um tengslin á milli þeirra,“ segir Rickard Lundqvist, talsmaður lögreglu, í samtali við SVT.

Maðurinn neitar sök í málinu en hann er grunaður um tilraun til manndráps.

Manninum sleppt síðdegis í gær

Haft eftir saksóknaranum Josefin Sävlund að eftir forrannsókn hafi verið ákveðið að fara ekki fram á gæsluvarðhald yfir manninum og var honum sleppt síðdegis í gær.

Segir Sävlund að við rannsókn hafi komið fram upplýsingar sem leiddu til að ekki þótti rétt að fara fram á gæsluvarðhald. Maðurinn sé þó enn grunaður um brot sem skilgreint er sem tilraun til manndráps. Enginn annar er sem stendur grunaður um að tengjast málinu, að því er segir í frétt SVT.

Uppfært klukkan 15:40

Fram kemur í uppfærðri frétt SVT að karlmaðurinn hafi ekki lengur stöðu grunaðs í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×