Erlent

Hundruð þúsundir flýja öflugan felli­byl

Kjartan Kjartansson skrifar
Börn leita skjóls fyrir rigningu á undan fellibylnum Mocha í Sittwe í Rakhine-ríki í Búrma í dag.
Börn leita skjóls fyrir rigningu á undan fellibylnum Mocha í Sittwe í Rakhine-ríki í Búrma í dag. AP

Fellibylurinn Mocha stefnir nú á strendur Bangladess og Búrma með sjávarflóðum á svæðum þar sem um tvær milljónir manna búa. Hundruð þúsundir manna hafa verið flutt af svæðinu fyrir komu bylsins.

Mocha er sagður öflugasti fellibylur sem gengið hefur inn í Bengalflóa í áratug. Honum fylgir úrhellisrigning og vindhraði upp á 54 metra á sekúndu. Spáð er allt að fjögurra metra háum sjávarflóðum sem gætu ógnað þorpum á láglendissvæðum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Hjálparstofnanir óttast að bylurinn ógni meira en milljón róhingja sem hafast við í flóttamannabúðum í Cox's Bazar í Bangladess. Um hálf milljón þeirra eru börn, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Neyðarskýli í skólum og hofum þar eru nú sögð yfirfull. Lögreglumenn hvöttu fólk til að leita skjóls og forðast ströndina í gær. 

Stjórnvöld í Bangladess lýstu yfir hæsta mögulega viðbúnaðarstigi fyrir borgina. Veðurstofan þar í landi telur bylinn ógna lífi og eigum fólks í átta héruðum við strandlengjuna. Varað er við því að skýfall sem fylgir bylnum geti komið af stað aurskriðum á hlíðóttum svæðum, þar á meðal í Cox's Bazar.

„Að fellibylur lendi á svæði þar sem mannúðarástand er þegar svo slæmt er alger martröð sem hefur áhrif á hundruð þúsundir viðkvæmra einstaklinga sem hafa skert baráttuþrek eftir röð áfalla,“ segir A.I. Ramanathan Balakrishnan sem skipuleggur mannúðarstarf Sameinuðu þjóðanna í Bangladess.

Ástandið er ekki betra í Búrma. Talið er að sex milljónir manna séu aðstoðar þurfi í Rakhine í Búrma. Blóðug átök hafa geisað á milli andspyrnuhópa og hersins eftir að herforingjar rændu völdum í landinu fyrir tveimur árum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×