Innlent

Biðja fyrr­verandi nemanda af­sökunar fyrir að hafa ekki tekið á sögu­sögnum

Árni Sæberg skrifar
Karl Frímannsson er skólameistari Menntaskólans á Akureyri.
Karl Frímannsson er skólameistari Menntaskólans á Akureyri. Samsett

Menntaskólinn á Akureyri hefur beðið fyrrverandi nemanda skólans afsökunar fyrir að hafa ekki tekið á sögusögnum um meint kynferðisbrot hans. Nemandinn hætti námi við skólann vegna sögusagnanna og ásakana á hendur honum. Mál sama nemanda var í hámæli síðasta haust þegar nemendur MH mótmæltu því að hann fengi að stunda nám við skólann þrátt fyrir meint brot.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef MA sem Karl Frímannsson skólameistari undirritar. Þar segir að skólinn hafi undanfarið unnið með mál nemandans, sem hafi neyðst til að hætta námi við skólann vorið 2021.

Sögusagnirnar og ásakanirnar snerust um meinta nauðgun nemandans á yngri frænku sinni.

Þegar sams konar ásakanir hafi komi upp í Menntaskólanum við Hamrahlíð í haust gagnvart sama nemanda voru þær skoðaðar af ráðgjafarhópi á vegum mennta-og barnamálaráðuneytis og reyndust ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Vísir fjallaði ítarlega um mál nemandans, og fleiri nemenda við MH, síðasta haust.

„MA lítur málið alvarlegum augum enda hafa þessar sögusagnir haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir umræddan nemanda. Af hálfu skólans er hann beðinn afsökunar á að ekki hafi tekist að rétta hlut hans meðan á námi hans stóð í MA og standa vörð um hans rétt,“ segir í tilkynningu skólameistara.

Þá segir að skólinn hafi í vetur tekið virkan þátt í vinnu mennta- og barnamálaráðuneytisins um nýja viðbragðsáætlun í málum af þessu tagi og muni innleiða hana þegar hún verður birt á næstu vikum.


Tengdar fréttir

MH verður fyrsti skólinn til að inn­leiða að­gerða­á­ætlun í kyn­ferðis­brota­málum

Þolendur í menntaskólum munu fá meiri sveigjanleika í námi og aukið utanumhald þegar ný aðgerðaáætlun um einelti, kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi verður innleidd. Menntaskólinn við Hamrahlíð verður fyrsti framhaldsskólinn til að innleiða áætlunina en þar var gerð bylting í byrjun mánaðar vegna óánægju nemenda með viðbrögð skólans í slíkum málum. 

Strákar á speglinum til­kynna ein­elti

Nokkrir strákar sem voru bendlaðir við ofbeldi þegar nöfn þeirra voru krotuð á spegil í Menntaskólanum við Hamrahlíð hafa kvartað til skólans vegna eineltis. Skólinn hefur óskað eftir því að utanaðkomandi teymi taki málin til meðferðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×