Erlent

Stálu tvö hundruð skóm en geta ólíklega notað þá

Máni Snær Þorláksson skrifar
Þjófarnir stálu einungis skóm fyrir hægri fætur.
Þjófarnir stálu einungis skóm fyrir hægri fætur. Getty

Óprúttnir þjófar hlupu á sig er þeir stálu rúmlega tvö hundruð skóm í borginni Huancayo í Perú á dögunum. Tjónið er sagt vera mikið en það er þó ólíklegt að þjófarnir græði mikið á skónum sem þeir stálu.

Eigandi skóbúðarinnar metur tjónið á yfir þrettán þúsund dollara sem samsvarar um 1,8 milljónum íslenskra króna. Það verður þó hægara sagt en gert fyrir þjófana að selja skóna eða jafnvel nota þá sjálfir þar sem þeir stálu engum skópörum, einungis skóm fyrir hægri fætur. 

Í frétt BBC um málið kemur fram að þjófarnir hafi náðst á upptöku öryggismyndavéla er þeir stálu skónum. Í upptökunni sjást þeir brjóta upp lásinn að búðinni um miðja nótt.

„Við erum búin að afla sönnunargagna á vettvangi. Það óvenjulega við þennan þjófnað er að það var einungis stolið skóm fyrir hægri fætur,“ er haft eftir Eduan Díaz, lögreglustjóra á svæðinu, í perúskum fjölmiðlum.

Rannsókn málsins virðist ganga vel þar sem lögregla er bæði með upptökuna og fingraför þjófanna. „Með upptökunni og fingraförunum munum við ná að finna þessa einstaklinga,“ segir Díaz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×