Manchester City í undan­úr­slit Meistara­deildar Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manchester City komið í undanúrslit þriðja árið í röð.
Manchester City komið í undanúrslit þriðja árið í röð. Danilo Di Giovanni/Getty Images

Bayern München þurfti kraftaverk til að komast áfram eftir 3-0 tap í fyrri leik liðsins gegn Manchester City í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Það gekk ekki eftir en leik kvöldsins lauk með 1-1 jafntefli.

Leikurinn var nokkuð hraður og skemmtilegur en ekki mikið um opin færi framan af. Dayot Upamecano var áfram í sviðsljósinu en hann var rekinn af velli í fyrri hálfleik. Það er þangað til myndbandsdómari leiksins skarst í leikinn og rauða spjaldið var dregið til baka vegna rangstöðu í aðdraganda þess.

Upamecano fékk einnig boltann í hendina innan vítateigs í fyrri hálfleik og vítaspyrna dæmd. Erling Braut Håland fór á vítapunktinn en þurfti að bíða dágóða stund með að taka spyrnuna. Virtist það fara í Norðmanninn sem negldi yfir og staðan markalaus í hálfleik.

Håland lét það ekki á sig fá og kom Man City yfir í síðari hálfleik þegar hann þrumaði boltanum í netið eftir að Upamecano renndi sér á rassinn í von um að stöðva framherjann. Þetta var 48. mark framherjans í aðeins 41 leik á tímabilinu.

Heimamenn fengu einnig vítaspyrnu undir lok leiks þegar boltinn fór í hendi varnarmanns Man City. Joshua Kimmich fór á punktinn og jafnaði metin í 1-1. Reyndust það lokatölur leiksins og Man City vinnur einvígið því 4-1.

Lærisveinar Pep Guardiola eru komnir í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þriðja árið í röð. Annað árið í röð mæta þeir Real Madríd. Nágrannaliðin AC Milan og Inter Milan mætast í hinum undanúrslitaleiknum.


Tengdar fréttir

Þjálfari Bayern segir lið sitt þurfa krafta­verk

Thomas Tuchel, tiltölulega nýráðinn þjálfari Þýskalandsmeistara Bayern München, segir sína menn þurfa kraftaverk í síðari leik liðsins gegn Manchester City í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira