Viðskipti erlent

Segir aftur upp þúsundum manna

Samúel Karl Ólason skrifar
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta.
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta. EPA/MICHAEL REYNOLDS

Mark Zuckerberg, forstjóri Meta (áður Facebook) tilkynnti í dag að aftur væri verið segja upp fjölmörgum starfsmönnum fyrirtækisins. Að þessu sinni eru það tíu þúsund manns verið er að segja upp og á ekki að ráða í fimm þúsund lausar stöður.

Í nóvember var ellefu þúsund starfsmönnum Meta sagt upp. sem þá samsvaraði um þrettán prósentum allra starfsmanna Meta, sem þá voru 86.482, fyrir uppsagnirnar.

Í færslu sem hann skrifaði á Facebook sagði hann að þessar nýjustu uppsagnir myndu standa yfir út árið, sem hann kallar „ár skilvirkni“. Fyrst á að segja upp fólki í ráðningadeild Meta og verða frekari uppsagnir tíundaðar í apríl eða í maí.

„Þetta verður erfitt og það er engin leið til að komast hjá því. Þetta felur í sér að kveðja hæfileikaríkt og ástríðufullt samstarfsfólk sem hefur tekið þátt í velgengni okkar,“ sagði Zuckerberg í áðurnefndri færslu. Hann sagðist þakklátur því fólki sem verður sagt upp.

Hann sagði að Meta þyrfti að bregðast við breytingum á hagkerfinu, endalokum lágra stýrivaxta, aukinnar óreiðu á alþjóðasviðinu og nýjar og kostnaðarsamar reglugerðir.

Viðskiptamiðlar ytra hafa sagt von á frekari uppsögnum hjá Meta. Síðasta ár var fyrsta árið í sögu Meta sem samdráttur varð á auglýsingatekjum fyrirtækisins og það hefur sömuleiðis tapað miklum fjármunum á sýndarveruleika- og Metaverseþróun.

Þá tilkynnti Zuckerberg nýverið nýja tekjuleið fyrir Meta með því að bjóða notendum Facebook og Instagram upp á áskriftarþjónustu.

Í frétt Wall Street Journal segir að uppsagnirnar muni að mestu beinast að deildum Meta þar sem unnið er að þróun snjalltækja, sýndarveruleikabúnaðar. Mörgum hjá dótturfyrirtækinu Reality Labs verði líklega sagt upp.

Sjá einnig: Vilja þreifa á sýndarheimum framtíðarinnar

Forsvarsmenn tæknifyrirtækja í Bandaríkjunum hafa sagt upp miklum fjölda fólks á undanförnum mánuðum. Samkvæmt vefsíðu þar sem haldið er utan um uppsagnir í geiranum eru þær nærri því þrjú hundruð þúsund frá því í upphafi síðasta árs.


Tengdar fréttir

Vinnan og félagslíf færð í sýndarheima næstu kynslóðar internetsins

Í náinni framtíð verður fólki mögulegt að heimsækja vini sína, horfa með þeim á kvikmynd eða fara á tónleika, án þess að fara úr húsi eða standa upp úr sófanum. Einnig verður hægt að fara í göngutúra um fornar borgir og jafnvel aðrar plánetur, skoða söfn eða versla í stafrænum verslunarrýmum þar sem gervigreind sinnir afgreiðslustörfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×