Fótbolti

Totten­ham byggir kapp­aksturs­braut undir vellinum í sam­starfi við F1

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tottenham Hotspur Stadium mun bjóða upp á kappakstursbraut undir vellinum.
Tottenham Hotspur Stadium mun bjóða upp á kappakstursbraut undir vellinum. Ryan Pierse/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham tilkynnti í vikunni samstarf við Formúlu 1 og mun félagið útbúa kappakstursbraut undir heimavelli liðsins, Tottenham Hotspur Stadium.

Brautin verður hönnuð og útbúin fyrir rafmagnsbíla og er hluti af „15 ára löngu stefnumótandi samstarfi“ eins og segir í tilkynningu Tottenham á heimasíðu félagsins.

Brautin verður fyrsta sinnar tegundar í heiminum og á sama tíma lengsta innanhússkappakstursbraut Lundúna, en gert er ráð fyrir því að hún muni opna í haust.

Þessi nýi heimavöllur Tottenham, Tottenham Hotspur Stadium, var tekinn í notkum árið 2019 og tekur tæplega 63 þúsund manns í sæti. Kappakstur verður ekki fyrsta íþróttin utan fótbolta sem fær pláss í mannvirkinu, en þar hafa einni farið fram boxbardagar og rúgbíleikir, ásamt leikjum í NFL-deildinni í amerískum fótbolta. Þá hafa hinar ýmsu stórstjörnur einnig haldið tónleika á vellinum.

„Síðan leikvangurinn var byggður höfum við alltaf viljað sjá hversu langt við getum gengið í að bjóða upp á upplifanir í heimsklassa sem munu draga fólk frá öllum heimshornum að alla daga ársins,“ sagði Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×