Dusty deildarmeistarar eftir sigur á Þór!

Snorri Rafn Hallsson skrifar
coco

Fyrr um kvöldið hafði Dusty unnið leik sinn gegn Ármanni 16–4. Leikurinn var endurtekning vegna þess að leikur liðanna í byrjun janúar hafði verið ógiltur. Atlantic og Dusty voru því jöfn að stigum fyrir leikinn gegn Þór en Atlantic með betri útkomu í innbyrðis viðureignum. Sigur á Þór nægði Dusty því til að vinna deildina, en ynni Þór yrðu Atlantic deildarmeistarar.

Siðast þegar Þór og Dusty tókust á fór leikurinn 16–10 fyrir Dusty í Dust 2. Í gær mættust liðin hins vegar í Anubis þar sem Dusty vann hnífalotuna og byrjaði í vörn. B0ndi átti fyrstu fellu leiksins fyrir Dusty og tókst honum í kjölfarið að aftengja sprengjuna og Dusty vann með alla menn á lífi. Þreföld fella frá TH0R kom Dusty í 2–0. Þegar Þórsarar gátu vopnast í þriðju lotu unnu þeir á snyrtilegan hátt og Allee lokaði þeirri næstu til að jafna metin. Með fjórfaldri fellu sá hann svo við ofursterkri vörn Dusty nánast einn síns liðs og Þór komnir yfir 3–2. 

Dusty svaraði þó um hæl og mætti þeim af hörku til að ná tökum á leiknum aftur. Detinate, TH0R og EddezeNNN voru komnir í gang og Dusty lék á snjallan hátt á mismunandi stöðum á kortinu. Þórsarar voru því oft of fáir til að ráða við Dusty þegar sprengjan var komin niður og misstu þá algjörlega fram úr sér um miðbik hálfleiksins. Fjórföld fella frá StebbaC0C0 sem var með flestar fellur fyrir Dusty tryggði liðinu ellefta stigið í fyrri hálfleik og ákjósanlega stöðu fyrir síðari hálfleikinn.

Staðan í hálfleik: Dusty 11 – 4 Þór

EddezeNNN og B0ndi opnuðu seinni hálfleikinn, og tvær fellur frá B0nda til viðbótar komu Dusty í 12–4. Peterrr svaraði fyrir Þór í þeirri næstu og Allee aftengdi sprengjuna eftir það. Það hleypti blóði í Þórsara sem minnkuðu muninn í 12–7. Spilaborgin féll þó eftir það, efnahagurinn hrundi þegar Dusty sá við þeim og Dusty sigldi sigrinum heim hratt og örugglega. 

Lokastaða: Dusty 16 – 7 Þór

Með sigrinum tryggði Dusty sér efsta sætið í Ljósleiðaradeildinni þetta tímabilið með 30 stig. Þar á eftir koma Atlantic með 28 stig, Þór með 26 og FH með 18.

Í næstu viku verður svo leikið um það hvert efstu fjögurra liðanna, Atlantic, Dusty, FH og Þór taka þátt í undankeppni fyrir Blast mótið.

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira