Erlent

Haley fer fram gegn Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóri Suður-Karólínu og fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, ætlar að bjóða sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna.
Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóri Suður-Karólínu og fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, ætlar að bjóða sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna. EPA/CAROLINE BREHMAN

Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóri Suður-Karólínu og fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, lýsti því yfir í morgun að hún ætli í forsetaframboð. Hún er sú fyrsta sem lýsir yfir framboði eftir að Donald Trump, fyrrverandi forseti, lýsti því yfir í nóvember í fyrra að hann ætlaði að gera aðra atlögu að Hvíta húsinu.

Haley birti myndband í morgun þar sem hún sagði frá ákvörðun sinni um að fara gegn fyrrverandi yfirmanni hennar. Fyrir tveimur árum sagðist hún ekki ætla að fara gegn Trump í kosningunum sem haldnar verða á næsta ári. Nú segist hún hafa skipt um skoðun og segir þörf á kynslóðaskiptum í Repúblikanaflokknum.

Trump er 76 ára gamall og Haley er 51 árs.

Þeir sem lýsa yfir framboði munu svo etja kappi í forvali Repúblikanaflokksins sem halda á á milli febrúar og júní á næsta ári. Kosningarnar sjálfar fara fram í nóvember 2024.

Samkvæmt AP fréttaveitunni er búist við því að margir Repúblikanar til viðbótar muni lýsa yfir forsetaframboði. Þeirra á meðal eru Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Trumps, Mike Pompeo, fyrrverandi utanríkisráðherra Trumps og Tim Scott, öldungadeildarþingmaður.

Kannanir vestanhafs gefa til kynna að Trump eigi mestan stuðning innan Repúblikanaflokksins og á eftir honum komi DeSantis. Aðrir og þar á meðal Haley, mælast með mun minna fylgi.

Guardian sagði nýverið frá því að kannanir sýndu einnig fram á að ef Haly myndi bjóða sig fram, myndi hún taka fylgi af DeSantis en ekki af Trump og þar með gera sigur Trumps í forvalinu líklegri.

AP segir að Trump hafi sagt frá því í síðasta mánuði að Haley hafi hringt í hann og rætt við hann um mögulegt framboð hennar. Hann mun hafa bent henni á að hún hafi heitið því að fara ekki gegn honum en að öðru leyti hafi hann ekki reynt að standa í vegi hennar.

Trump sagði eðlilegt að fólk skipti um skoðanir og henni fyndist hún verða að bjóða sig fram ætti hún að gera það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×