Erlent

Telja mann hafa myrt tvo í Þránd­heimi áður en hann svipti sig lífi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þrjú fundust látin í heimahúsi í Þrándheimi. Lögreglu grunar að einn hafi myrt hina tvo áður en hann tók eigið líf.
Þrjú fundust látin í heimahúsi í Þrándheimi. Lögreglu grunar að einn hafi myrt hina tvo áður en hann tók eigið líf. Getty/Ana Fernandez

Lögreglan í Þrándheimi hefur til rannsóknar andlát þriggja sem fundust látin í heimahúsi í Þrándheimi í gærkvöldi. Ein af kenningunum sem lögregla er að vinna með er að einn hinna látnu hafi myrt hina tvo áður en hann svipti sig lífi.

Þetta tilkynnti lögreglan á blaðamannafundi í morgun og var þar tilkynnt að tveir hinna látnu séu karlmenn og sá þriðji kona. Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins tilkynnti lögregla á fundinum að einn hinna látnu hafi búið á heimilinu sem þeir fundust á. Hin búi annars staðar í borginni. 

Fólkið tengist þá einhverjum fjölskylduböndum en lögregla vildi ekki greina frá því nánar. Vinur hinna látnu kom að þeim og hringdi á neyðarlínu. Að sögn lögreglu hafði vinurinn séð tvo liggja meðvitundarlausa á gólfinu í gegnum glugga og tilkynnt það til lögreglu. Þegar lögregla kom á vettvang, um klukkan 21 að norskum tíma, fannst sá  þriðji látinn. 

Þá telur lögregla sig hafa borið kennsl á hin látnu en bíður enn eftir niðurstöðu úr DNA- og fingrafaraprófum. Lögreglan hefur þá ekki náð að láta alla nánustu ættingja hinna látnu vita og hefur því ekki birt nöfn þeirra. 

„Rannsóknin er enn á frumstigum og verið er að vinna með nokkrar kenningar. Ein af kenningunum er að þetta sé morð og sjálfsvíg. Við getum ekkert fleira sagt um hvð gerðist hér að svo stöddu,“ segir Anne Haave, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni í Þrændalögum. 

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Píeta samtökin. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×