Rafíþróttir

16. umferð CS:GO | Úrslitin munu ráðast á lokametrunum

Snorri Rafn Hallsson skrifar
16 lið

Enn er allt í járnum í Ljósleiðaradeildinni í CS:GO þegar einungis tvær umferðir eru eftir.

Leikir vikunnar

Breiðablik 14 – 16 Atlantic

Blikarnir mættu af miklum krafti í Vertigo og víluðu ekki fyrir sér að stinga toppliðið af með mikilvægum fellum og góðum endurtökum. Eftir 11 lotur var staðan 9–2 fyrir Breiðabliki sem hafði haft algjöra stjórn á leiknum. Ekki tókst þeim að halda henni út hálfleikinn þar sem Atlantic bætti verulega í og minnkaði muninn í 9–6. Breiðablik jók forskot sitt örlítið í upphafi síðari hálfleiks sem þó var nokkuð fram og til baka en þegar  Atlantic náði tveimur lotum í röð með Bjarna í fararbroddi voru Blikar orðnir blankir. Gömlu félagarnir Bjarni og LeFluff héldu sig þétt saman og voru flugbeittir og náðu með hraðri og öflugri vörn að jafna leikinn í 12–12 og upp frá því missti Breiðablik forskotið og leikinn frá sér.

TEN5ION 11 – 16 Viðstöðu

Leikmenn Viðstöðu voru óhræddir við að taka áhættu í Vertigo í upphafi leiksins gegn TEN5ION og skilaði það liðinu góðum árangri. Viðstöðu vann fyrstu 10 lotur leiksins með því að halda sínu striki og hleypa TEN5ION hvergi að. Undir lokin klóraði TEN5ION örlítið í bakkann og var staðan 11–4 Viðstöðu í vil í hálfleik. Viðstöðu átti í miklu basli með sóknarleikinn og reyndist erfitt að klára leikinn. TEN5ION komst því ansi nærri þeim með þéttri vörn en allt kom fyrir ekki.

FH 16 – 6 Fylkir

Aftur var um að ræða gríðarlega ójafnan leik þegar liðin mættust í Nuke. ADHD var stórkostlegur á vappanum sem hann beitti í gríð og erg til að veikja sókn Fylkis. Með ZerQ og DOM sér til liðs læsti FH kortinu algjörlega og áttu særðir Fylkismenn fá ráð á móti. Staðan í hálfleik var því 14–1 fyrir FH. FH kom sér í sigurstöðu strax í upphafi síðari hálfleiks en Fylkismenn héldu lífi í leiknum um stund áður en yfir lauk og FH vann.

Þór 16 – 5 Ármann

Lið Ármanns var afar ólíkt sjálfu sér þegar það mætti Þór í Anubis kortinu. Alla ró vantaði í liðið sem hitti að auki illa og komst því aldrei almennilega inn í leikinn. Allee fór hins vegar af mikilli list fyrir Þórsurum sem tóku hárréttar ákvarðanir og spiluðu vel úr stöðum sínum. Enn og aftur var staðan 11–4 í hálfleik í þessari umferð, í þetta skiptið fyrir Þór. Síðari hálfleikurinn var snaggaralegur þar sem Hyper krækti í skammbyssulotuna fyrir Ármann. Þórsarar svöruðu um hæl af miklum krafti og tóku upp þráðinn þar sem frá var horfið í fyrri hálfleik og kláruðu leikinn auðveldlega.

Dusty 16 – 6 LAVA

Dusty átti harma að hefna eftir tapið gegn LAVA í Inferno fyrr á tímabilinu, en leikur vikunnar fór einnig fram í Inferno. Framan af voru leikmenn Dusty galgopalegir og sprækir en eftir því sem á leið á leikinn kom meiri yfirvegun fram. Það sem ekki breyttist þó var það að Dusty hafði fullkomna stjórn á kortinu og vann svo gott sem allar loturnar í fyrri hálfleik, staðan 13–2 þegar liðin skiptu um hlutverk. Dusty kom sér þá í 15–2 áður en lifnaði yfir LAVA um stund, en það reyndist of lítið, of seint og Dusty náði í stigin tvö.

Staðan

Toppliðin þrjú, Atlantic, Dusty og Þór unnu öll sína leiki og eru því enn jöfn. Eini leikurinn sem liðin þrjú eiga eftir innbyrðis er viðureign Dusty og Þórs sem lýkur tímabilinu. Þannig þarf Atlantic einungis að halda sínu striki en Dusty og Þór geta ekki endað jöfn að stigum.

Enn getur allt gerst fyrir miðju töflunnar þar sem hart er barist um fjórða sætið sem Ármann heldur í augnablikinu, en TEN5ION og Fylkir eru enn á botninum.

Næstu leikir

17. og næstsíðasta umferð Ljósleiðaradeildarinnar í CS:GO fer fram dagana 7. og 9. febrúar og er dagskráin eftirfarandi:

  • TEN5ION – Ármann, þriðjudaginn 7/2 kl. 19:30
  • Atlantic – Viðstöðu, þriðjudaginn 7/2 kl. 20:30
  • Dusty – FH, fimmtudaginn 9/2 kl. 19:30
  • Fylkir – LAVA, fimmtudaginn 9/2 kl. 20:30
  • Breiðablik – Þór, fimmtudaginn 9/2 kl. 21:30

Sýnt verður frá leikjunum í beinni á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×