Erlent

Hersveitir Serbíu á hæsta viðbúnaðarstigi vegna Kósovó

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Áhyggjur eru uppi um að það stefni í vopnuð átök milli Serbíu og Kosovo.
Áhyggjur eru uppi um að það stefni í vopnuð átök milli Serbíu og Kosovo. AP/Serbneska varnarmálaráðuneytið

Hersveitir Serbíu eru á hæsta viðbúnaðarstigi að sögn varnarmálaráðherrans Milos Vucevic en ástæðan er stigmögnun átaka við nágrannaríkið Kósovó. 

Kósovó lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008 en er ekki viðurkennt sem sjálfstætt ríki af stjórnvöldum í Belgrad. Þau hafa hvatt 120 þúsund serbneska íbúa Kósovó til að taka afstöðu gegn stjórninni í Pristina.

Þetta er ekki í fyrsta sinn á síðustu misserum sem viðbúnaður hefur verið aukinn hjá hersveitum Serbíu vegna átaka við Kósovó; það gerðist síðast í nóvember þegar stjórnvöld héldu því fram að drónar hefðu verið sendir yfir landamærin frá Kósovó.

Þann 10. desember síðastliðinn settu Serbar í norðurhluta Kósovó svo upp vegatálma til að mótmæla handtöku fyrrverandi lögreglumanns, sem var grunaður um að hafa átt þátt í árásum gegn albönskum lögreglumönnum.

Þessu til viðbótar hefur skotárásum fjölgað.

Vucevic sagði í gær að til að bregðast við ástandinu hefði vopnuðum hermönnum verið fjölgað úr 1.500 í 5.000. Yfirmaður hermála, Milan Mojsilovic, var sendur að landamærunum á sunnudag og sagði ástandið þar flókið og erfitt.

Ástand mála hefur verið sérstaklega viðkvæmt í norðurhluta Kósovó frá því í nóvember, þegar hundruð Serba innan lögreglu- og dómskerfisins gengu frá störfum sínum. Um var að ræða mótmæli gegn ákvörðun stjórnvalda í Kosovo um að banna serbneskum íbúum landsins að nota bílnúmer gefin út í Serbíu.

Fallið var frá ákvörðuninni.

Ana Brnabic, forsætisráðherra Serbíu, sagði í síðustu viku að ríkin væru á barmi vopnaðra átaka. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×