Fótbolti

Guðbjörg fékk styttuna eftir fimm ára bið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir fékk styttuna afhenta í dag.
Guðbjörg Gunnarsdóttir fékk styttuna afhenta í dag. KSÍ

Guðbjörg Gunnarsdóttir fékk í dag afhenta styttu frá Knattspyrnusambandi Íslands fyrir að spila 50 landsleiki fyrir Íslands hönd. Afhendingin kemur í kjölfar gagnrýni á sambandið fyrr í vetur.

Gagnrýni spratt upp á meðal fyrrum landsliðskvenna eftir að Aron Einar Gunnarsson var heiðraður með sérmerktri treyju fyrir hundraðasta landsleik sinn, gegn Sádi-Arabíu í nóvember.

Dagný Brynjarsdóttir vakti þá máls á því að hvorki hún né Glódís Perla Viggósdóttir hefðu fengið nokkra viðurkenningu frá KSÍ eftir að hafa í apríl spilað sinn 100. A-landsleik. Margrét Lára Viðarsdóttir benti þá á að hún hefði aldrei fengið tækifæri til að kveðja almennilega þegar hún lauk löngum landsliðsferli sínum.

Guðbjörg bættist í hóp þeirra radda þegar hún benti á að KSÍ hefði aldrei afhent henni styttu fyrir að leika 50 landsleiki, en samkvæmt reglugerð sambandsins fá allir landsliðsmenn sem ná þeim áfanga styttu að gjöf.

Guðbjörg lék sinn 50. landsleik sumarið 2017 og hefur biðin því staðið í rúm fimm ár.

Hratt var brugðist við þeirri kvörtun Guðbjargar sem hefur nú fengið styttuna afhenta eftir að hún kom hingað til lands fyrir hátíðarnar, en hún er búsett í Svíþjóð.

KSÍ birti mynd af henni með styttuna í dag.


Tengdar fréttir

„Vitum að þetta er karl­lægur heimur, þessi knatt­spyrnu­heimur“

Stjórnarkona í hagsmunasamtökum knattspyrnukvenna segir ekki óvænt að kynbundinn munur sé á því hvernig Knattspyrnusamband Íslands heiðrar landsliðsfólk fyrir afrek sín. Þá veltir prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands fyrir sér hvort KSÍ hafi „tekið samtalið“ við Sádi-Arabíu eins og talað var um eftir að ákveðið var að leika vináttulandsleik gegn þjóð sem virðir mannréttindi að vettugi.

Guðbjörg fær loksins styttuna í jólagjöf

Enn bætist í hóp landsliðskvenna sem gagnrýna Knattspyrnusamband Íslands fyrir skort á viðurkenningu í þeirra garð, eftir að Aron Einar Gunnarsson var heiðraður með sérstakri treyju eftir hundraðasta landsleik sinn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×