Fótbolti

Milljarðavöllur rifinn eftir ársnotkun og þrettán leiki

Valur Páll Eiríksson skrifar
Völlur 974 hefur sinnt sínum tilgangi og verður nú rifinn eftir að aðeins 13 leikir fóru fram á vellinum.
Völlur 974 hefur sinnt sínum tilgangi og verður nú rifinn eftir að aðeins 13 leikir fóru fram á vellinum. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Leikur Brasilíu og Suður-Kóreu í 16-liða úrslitum HM í Katar í gærkvöld var síðasti viðburðurinn sem fram fór á Velli 974 í Doha sem verður nú rifinn. 

Völlur 974 dregur nafn sitt af 974 endurnýttum skipsgámum sem mynda hann og sérkennilegt útlit vallarins. Völlurinn var opnaður fyrir rúmu ári síðan en fyrsti íþróttaviðburðurinn sem þar fór fram var leikur Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Sýrlands á fótboltamóti Arabalanda sem fram fór í Katar í lok árs í fyrra.

Alls fóru sex leikir á því móti fram á vellinum og þá voru sjö leikir spilaðir á vellinum á HM, sá síðasti milli Brasilíu og Suður-Kóreu í gærkvöld. Völlurinn tekur rúmlega 44 þúsund manns í sæti.

Völlurinn verður nú rifinn eftir að hafa sinnt sínum tilgangi. Hann er sagður vera á meðal sjálfbærari fótboltavalla heims, enda byggður að stóru leyti úr endurunnu efni og tæplega þúsund skipagámum.

Gríðarstórt kolefnisspor fylgir því þó að byggja völl frá grunni, burtséð frá efnum sem notuð eru til byggingar hans. Sér í lagi þegar notkunin er eins skammvinn og raun ber vitni.

Yfirvöld í Katar lofuðu því að heimsmeistaramótið í ríkinu yrði fyrsta kolefnishlutlausa HM í sögunni en fjölmörg samtök hafa sett spurningamerki við að slíkar tilætlanir takist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×