Viðskipti erlent

Kynnir lita­flokkun til leiks á Twitter

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hakið fræga má sjá hér á myndinni. Í næstu viku verða hökin litaflokkuð.
Hakið fræga má sjá hér á myndinni. Í næstu viku verða hökin litaflokkuð. Getty/NurPhoto/Nikolas Kokovlis

Twitter hyggst taka í gagnið litaflokkuð hök við reikninga á Twitter sem gefa til kynna að um hinn rétta aðila sé um að ræða á bak við viðkomandi reikning.

Elon Musk, forstjóri og eigandi Twitter, tilkynnti um þetta á Twitter í morgun. Þar segir hann að hökin verði tekin í gagnið frá og með föstudeginum í næstu viku.

Skömmu eftir kaup Musk á Twitter gerði fyrirtækið tilraun með að notendur gætu keypt sér hið þekkta bláa hak, sem áður var einungis í boði fyrir aðganga þekktra einstaklinga, fjölmiðla, opinberra embætta og stofnana.

Segja má að sú tilraun hafi mistekist hrapallega. Nú mun hakið snúa aftur, en í mismunandi litum eftir því hver stendur á bak við reikninginn.

Þannig mun gullitað hak vera í boði fyrir fyrirtæki, grátt hak fyrir stofnanir og hið þekkta bláa hak fyrir einstaklinga. Hver og einn reikningur verður auðkenndur handvirkt af Twitter áður en að hakinu verður útdeilt.

„Sársaukafullt en nauðsynlegt,“ segir Musk á Twitter.

Ekki fylgir sögunni hvort að hægt verði að greiða fyrir það að fá auðkenningu líkt og prófað var á dögunum.

Musk hefur á þeim örfáum vikum sem hann hefur átt Twitter gert ýmsar breytingar á fyrirtækinu. Þar á meðal verður öllum þeim notendum á Twitter sem hafa verið bannaðir fyrir nær hvaða sakir sem er hleypt aftur á samfélagsmiðilinn í næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×