Innlent

„Falskt öryggi“ fyrir íbúa á Hofs­ósi og í Varma­hlíð

Atli Ísleifsson skrifar
Slökkviliðsbíll Brunavarna Skagafjarðar sem staðsettur er á Sauðárkróki.
Slökkviliðsbíll Brunavarna Skagafjarðar sem staðsettur er á Sauðárkróki. Brunavarnir Skagafjarðar

Mjög erfiðlega hefur gengið að manna útstöð Brunavarna Skagafjarðar á Hofsósi og er stöðin nær óstarfhæf og gefur falskt öryggi fyrir íbúa á svæðinu.

Þetta kemur fram í bókun byggðarráðs Skagafjarðar, en Svavar Atli Birgisson slökkviliðsstjóri mætti á fund ráðsins í síðustu viku til að ræða framtíð og skipulag slökkviliðsmála í umdæminu.

Fram kom að mjög erfiðlega hafi gengið að manna útstöð slökkviliðsins á Hofsósi undanfarin ár svo ásættanlegt sé, með tilliti til viðbragðs og þjónustu sem slík mönnun krefst. Búið sé að auglýsa ítrekað eftir mannskap án árangurs og sé svo komið að útkallseiningin er nær óstarfhæf og gefur falskt öryggi fyrir íbúa á þjónustusvæðinu. Þó kemur fram að slökkviliðsbíllinn á Hofsósi sé í góðu lagi. 

Ónýtur slökkviliðsbíll í Varmahlíð

Hið sama sé þó ekki uppi á teningnum í Varmahlíð. Þar sé slökkviliðsbíllinn ónýtur og megi því segja að báðar útfallseiningarnar – á Hofsósi og í Varmahlíð – séu óstarfhæfar í dag.

Fjarlægðin milli Hofsóss og Sauðárkróks, þar sem næstu starfhæfu slökkviliðsstöð sé að finna, er um 36 kílómetrar, en milli Varmahlíðar og Sauðárkróks um 25 kílómetrar.

Frá Varmahlíð í Sveitarfélaginu Skagafirði.Vísir/Vilhelm

Bíllinn fluttur í Varmahlíð?

Byggðarráð veltir því upp hvort rétt sé að flytja slökkviliðsbílinn á Hofsósi til Varmahlíðar, eða þá kaupa nýjan bíl. Til að það gerist verði þó að tryggja að mönnun verði á Hofsósi.

Í bókun byggðarráðs Skagafjarðar segir að ráðið hafi áhyggjur af stöðu mála og feli sveitarstjóranum Sigfúsi Inga Sigfússyni og Svavari Atla slökkviliðsstjóra að vinna að tillögu í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×