Formúla 1

Segir Ricciar­do ó­þekkjan­legan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Daniel Ricciardo og Christian Horner á góðri stundu.
Daniel Ricciardo og Christian Horner á góðri stundu. Mark Thompson/Getty Images

Christian Horner, liðsstjóri Red Bull í Formúlu 1, segir fyrrum ökumann liðsins, Daniel Ricciardo, nær óþekkjanlegan á brautinni. McLaren og Ricciardo komust að samkomulagi nýverið um að rifta samningi hans eftir tímabilið. Óvíst er hvort Ricciardo verði áfram í Formúlu 1 á næsta keppnistímabili

Hinn 33 ára gamli Ricciardo keyrði fyrir Red Bull frá 2014 til 2018. Stóð hann sig með prýði en eftir að Max Verstappen tók yfir sviðsljósið hjá liðinu ákvað Ricciardo að færa sig um set. Fyrst til Renault og svo til McLaren.

Horner hefur þó ekki gleymt Ástralanum og man eftir hans stóra brosi, gleðinni sem honum fylgdi og árangri í Formúlu 1. Eitthvað sem virðist vanta hjá Ricciardo nú.

„Þetta er mjög sorglegt. Ég hef talað örlítið við Daniel en ég veit svo sem ekki nákvæmlega hvað er í gangi,“ sagði Horner en sem stendur er Ricciardo 51 stigi á eftir samherja sínum Lando Norris hjá McLaren.

„Ég þekki hann ekki, þetta er ekki sami ökumaður og var hjá okkur. Hann er einn af þeim bestu á brautinni, hann er með hæfileikana. Sjálfstraustið hans virðist einfaldlega horfið. Við erum vön að sjá hann upp á palli með sitt stóra bros að gera eitthvað fyndið. Við sjáum ekkert slíkt lengur,“ bætti Horner við.

„Ég vona að hann fái tækifæri til að vera áfram í Formúlu 1 þar sem ég tel íþróttina betur setta með hann meðal ökumanna heldur en ekki,“ sagði Horner að endingu um málið.

Ricciardo hefur verið orðaður við Alpine [áður Renault], Haas og Williams en sem stendur verður hann ekki meðal ökumanna Formúlu 1 á næstu leiktíð. Eitthvað þarf að breytast og það hratt hjá þessum áður glaðlyndi ökumanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×