Golf

Stofnaði fata­línu fyrir golfara landsins: „Sniðugt að líta út eins og maður geti eitt­hvað í klúbb­húsinu“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Styrmir Erlendsson er á bakvið fatamerkin Brutta Faccia og Brutta Golf.
Styrmir Erlendsson er á bakvið fatamerkin Brutta Faccia og Brutta Golf. Brutta/Einkasafn

Nafnið Styrmir Erlendsson kveikir ef til vill ekki á mörgum bjöllum nema fólk sé úr Árbænum eða hafi fylgst gríðarlega vel með neðri deildum íslenskrar knattspyrnu undanfarin ár. Styrmir er þó að skapa sér nafn í öðrum geira þessa dagana en hann er á bakvið íslenska golfmerkið Brutta Golf.

Um er að ræða íslenskt fatamerki sem var stofnað í ár, 2022. Merkið kemur í raun undan Brutta Faccia sem hefur hannað „streetwear“ vörur frá árinu 2018. Flíkurnar hannar Styrmir en hann er í dag nemi við Listaháskóla Íslands þar sem hann lærir grafíska hönnun. Það segir sig kannski sjálft en hann hefur mikinn áhuga á golfi, sá áhugi er hins vegar tiltölulega nýtilkominn.

„Golfið byrjaði að kitla mann 2015 en þá var maður enn í fótbolta og minni tími fyrir golfið. Ég myndi segja að ég hafi farið í þetta af krafti sumarið 2021. Ég er að sjálfsögðu líka á golfvellinum en ég er ekki að gera neinar gloríur þar. Þá er einmitt sniðugt að vera flott klæddur og líta út eins og maður geti eitthvað í klúbbhúsinu.“

Brutta Golf hefur þá sérstöðu að vera fyrsta íslenska golfmerkið sem kemur á markað. Helsta markmið merkisins er að hanna hágæða golffatnað sem hentar íslenskum veðurskilyrðum. Styrmir segir að mikið hafi verði lagt upp úr því að hanna vörur úr gæðaefni sem þó sé hægt að selja á sanngjörnu verði. 

Einnig er merki Brutta Golf stílhreint og ætti að henta flestum kylfingum, allt frá byrjendum yfir í atvinnumenn. Auk þess er hægt að nota flíkurnar í annað, eins og til dæmis aðrar íþróttir, útivist, áhugamál eða jafnvel bara til að vera í dagsdaglega.

Aron Jóhannsson, leikmaður Vals í Bestu deild karla og fyrrum atvinnumaður í fótbolta.Brutta Golf

Styrmir hóf ferilinn með Fylki og skoraði meðal annars frægt mark í 3-2 tapi gegn KR er síðarnefnda liðið varð Íslandsmeistari árið 2011. Síðan þá hefur hann aðallega spilað með ÍR sem og öðru liðum enn neðar í fótboltapíramídanum hér á landi. Styrmir myndi ekki slá hendinni á móti því að hanna fótboltabúninga þegar fram líða stundir.

„Það hefur ekkert enn komið upp en það væri virkilega gaman að hanna búninga á eitthvað lið. Það var mjög gaman til dæmis að gera mætingargalla meistaraflokk Fylkis.“

Til að koma merkinu enn frekar á framfæri þá var Brutta Open haldið á golfvelli GKG þann 15. júlí síðastliðinn. Mæting var framar vonum en mótið fylltist fljótt, alls mættu 90 kylfingar til leiks á mótinu þar sem vörurnar voru meðal annars til sölu.

Þá var Halldór Viðar Gunnarsson klæddur vörum frá Brutta Golf á Íslandsmótinu sem fram fór í Vestmannaeyjum nýverið. Var hann að keppa í meistaraflokki í fyrsta skipti.

Halldór Viðar í Eyjum.Úr einkasafni

Að endingu var Styrmir spurður út í það hvort fatahönnun væri hans helst ástríða í dag eða hvort fótboltinn ætti enn sitt pláss.

„Fatahönnun er vissulega áhugaverð en ég og saumavélin eigum lítið saman. Ég læt aðra um það en grafíkin er það sem ég pæli mikið í. Það er rosa gaman að fá prufur, laga og breyta og sjá svo loka útkomuna klára. Fótboltinn er annars alltaf ofarlega hjá manni, ég fylgist mikið með og er kominn með sjúklega breitt bak enda harður stuðningsmaður Everton og Fylkis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×