Formúla 1

Fjórfaldi heimsmeistarinn Vettel hættir eftir tímabilið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sebastian Vettel ætlar að hætta í Formúlu 1 eftir tímabilið.
Sebastian Vettel ætlar að hætta í Formúlu 1 eftir tímabilið. Dan Istitene - Formula 1/Formula 1 via Getty Images

Sebastian Vettel, fjórfaldur heimsmeistari í Formúlu 1, tilkynnti það í dag að hann ætli sér að hætta keppni að yfirstandandi tímabili loknu.

Vettel er einn sigursælasti ökumaður sögunnar í Formúli 1, en hann vann fjóra heimsmeistaratitla í röð árin 2010 til 2013 þegar hann ók fyrir Red Bull. Árið 2010 varð hann yngsti heimsmeistari sögunnar í Formúlu 1, þá aðeins 23 ára og 134 daga gamall.

Aðeins Lewis Hamilton, Michael Schumacher og Juan Manuel Fangio hafa fagnað heimsmeistaratitli ökumanna oftar en Vettel. Þjóðverjinn hefur fagnað sigri í 53 keppnum en aðeins Hamilton og Schumacher hafa gert það oftar.

Vettel hefur ekið fyrir Aston Martin frá því á seinasta tímabili. Liðið vildi halda kappanum í liðinu, en Vettel hefur ákveðið að segja þetta gott.

„Dagurinn í dag er ekki til þess að kveðja, heldur til þess að þakka fyrir mig. Ég vil þakka öllum, sérstaklega aðdáendum mínum. Án ykkar stuðnings væri Formúla 1 ekki til,“ sagði Vettel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×