Fótbolti

Barcelona á­fram í rúllettu með fram­tíðar­tekjur fé­lagsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Joan Laporta, forseti Barcelona og Xavi Hernández er sá síðarnefndi var tilkynntur sem nýr þjálfari Barcelona á síðasta ári.
Joan Laporta, forseti Barcelona og Xavi Hernández er sá síðarnefndi var tilkynntur sem nýr þjálfari Barcelona á síðasta ári. Pedro Salado/Getty Images

Spænska knattspyrnufélagið Barcelona hefur selt fimmtán prósent til viðbótar af framtíðar sjónvarpstekjum félagsins. 

Kaupandinn er fjárfestingafélagið Sixth Street sem keypti nýverið tíu prósent af framtíðar sjónvarpstekjum Börsunga. Fjárfestingafélagið á því nú 25 prósent af því sem mun koma í kassann í gegnum slíkar tekjur á komandi árum.

Fyrr í júlímánuði greindi Vísir frá því að Sixth Street hefði keypt tíu prósent af sjónvarpsrétti Barcelona næstu 25 árin. Alls borgaði félagið 270 milljónir evra fyrir réttinn en hann var um tíma í hættu þar sem Barcelona hafði þegar fengið lán hjá bandaríska bankanum Goldman Sachs.

Barcelona fékk 595 milljónir evra að láni frá bankanum á síðasta ári með veði í sjónvarpsrétti félagsins og því getur félagið ekki selt sjónvarpsréttinn án samráðs við bankann.

Samningur Barcelona við Sixth Street gerir það að verkum að spænska félagið getur eytt 267 milljónum á þessari leiktíð. Það hefur nú þegar fest kaup á Robert Lewandowski, Raphinha og Pablo Torre fyrir samtals 93 milljónir evra. Þá gengu þeir Andreas Christensen og Franck Kessié í raðir félagsins á frjálsri sölu.

Ekki nóg með það heldur eru Börsungar á höttunum á eftir Jules Koundé hjá Sevilla, César Azpilicueta og Marcos Alonso hjá Chelsea ásamt Bernardo Silva hjá Manchester City.

Þó Barcelona hafi nú smá pening milli handanna þá nema skuldir félagsins vel yfir milljarð evra og þá á hollenski miðjumaðurinn Frenkie de Jong enn inni þónokkrar milljónir evra í ógreidd laun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×