Fótbolti

Ron­aldo með ris­a­til­boð frá Sádi-Arabíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cristiano Ronaldo gæti íhugað gylliboð frá Sádi-Arabíu.
Cristiano Ronaldo gæti íhugað gylliboð frá Sádi-Arabíu. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Portúgalski framherjinn Cristiano Ronaldo vill komast frá Manchester United. Hann vill spila í Meistaradeild Evrópu en gæti freistast til að taka gylliboði frá Sádi-Arabíu þar sem talið er að hann fengi rúmlega 105 milljónir punda á ári.

Þegar leikmenn Man United mættu í vinnuna eftir stutt sumarfrí var Ronaldo hvergi sjáanlegur. Skömmu síðar bárust þær fregnir að ofurstjarnan frá Portúgal vildi yfirgefa félagið sökum „metnaðarleysis“ á leikmannamarkaðnum. Aðalástæðan er hins vegar talin sú að Ronaldo vilji spila í Meistaradeild Evrópu.

Sökum þess að Man Utd er ekki í Meistaradeildinni á komandi leiktíð þá lækkar Ronaldo töluvert í launum. Í stað þess að vera með rúmlega 500 þúsund pund á viku þá fær hann „aðeins“ í kringum 350 þúsund pund nú.

Það gæti því verið að gylliboð frá Sádi-Arabíu heilli kappann en það myndi líklega taka hann innan við eitt tímabil til að brjóta öll markamet sem hægt er að brjóta þar í landi.

Götublöðin á Englandi halda því fram lið í S-Arabíu hafi boðið í leikmanninn og sé tilbúið að borga honum laun sem hafa vart sést áður. Man Utd myndi fá 30 milljónir í sinn vasa, sem er meira en félagið borgaði Juventus er það keypti Ronaldo á síðasta ári. 

Framherjinn myndi svo fá á bilinu 210-250 milljónir punda fyrir tvö ár í Sádi-Arabíu á meðan umboðsmenn hans myndu fá 20 milljónir punda fyrir sína vinnu.

Ronaldo, sem er enn í fríi á meðan liðsfélagar hans flengja Liverpool í Tælandi, gæti íhugað slíkt gylliboð þar sem ekki hefur komið fram hvenær hann mun snúa aftur til æfinga. Sem stendur er hann í „ótímabundnu“ leyfi vegna fjölskylduaðstæðna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×