Fótbolti

Þrír Ís­lendingar í liði um­ferðarinnar

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Steinn Óskarsson skoraði þrennu og hélt titilvonum FCK á lífi.
Orri Steinn Óskarsson skoraði þrennu og hélt titilvonum FCK á lífi. @FCKobenhavn

Þrír íslenskir landsliðsmenn eru í ellefu manna úrvalsliði síðustu umferðar í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Íslendingar eiga líka fimm mörk sem koma til greina sem mark umferðarinnar.

Það kemur væntanlega engum á óvart að sjá Orra Stein Óskarsson í liði 27. umferðarinnar, eftir fullkomna frammistöðu á sunnudaginn. Hann kom þá inn á sem varamaður hjá FCK snemma í seinni hálfleik, og skoraði þrennu í mikilvægum 3-2 sigri á AGF.

Stefán Teitur Þórðarson er einnig í úrvalsliðinu en hann skoraði þriðja mark Silkeborg í frábærum 3-0 sigri á Midtjylland, með föstu skoti af vítateigslínunni.

Lið umferðarinnar í dönsku úrvalsdeildinni. Þrír Íslendingar eru í liðinu.Superliga

Vinstri bakvörðurinn Kolbeinn Birgir Finnsson er svo þriðji Íslendingurinn í úrvalsliðinu eftir frammistöðu sína í 1-1 jafntefli Lyngby við Vejle í neðri hluta deildarinnar. Kolbeinn lagði þar upp mark Sævars Atla Magnússonar sem reyndist dýrmætt því með sigri hefði Vejle sent Lyngby í fallsæti.

Öll mörkin sem skoruð voru í umferðinni koma til greina í valinu á marki umferðarinnar, og þar með eru öll þrjú mörk Orra tilnefnd sem og mark Stefáns Teits og mark Sævars Atla, sem skoraði með laglegum hætti eftir fyrirgjöf Kolbeins. Kosið er um mark umferðarinnar hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×