Erlent

Mo Farah var seldur í man­sal sem barn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Mo Farah er margfaldur heims-, Evrópu- og Ólympíumeistari í fimm og tíu þúsund metra hlaupi.
Mo Farah er margfaldur heims-, Evrópu- og Ólympíumeistari í fimm og tíu þúsund metra hlaupi. Getty/Nathan Stirk

Langhlauparinn Sir Mo Farah var seldur í mansal sem barn en hann kom til Bretlands frá Sómalíu þegar hann var einungis níu ára gamall. Hann var látinn gera húsverk hjá fjölskyldu í Bretlandi og fékk ekki að fara í skóla fyrstu þrjú árin.

Farah er fæddur og uppalinn í Sómalíu en var tekinn af heimili sínu þegar hann var níu ára gamall. Honum var sagt að hann væri að fara að heimsækja ættingja í Djibútí en þegar þangað var komið var hann settur beint í annað flug til Bretlands.

Mátti ekki segja neinum hver hann væri

Í heimildamynd BBC sem kemur út í heild sinni á miðvikudaginn segir Farah að hann hafi verið mjög spenntur að fara í flugvél en þegar hann kom til Bretlands áttaði sig hann á því að það væri eitthvað skrítið í gangi. Honum var sagt að segja fólki að hann héti Mohamed en upprunalegt nafn hans er Hussein Abdi Kahin.

Fólkið sem kom honum til Bretlands fór með hann í íbúð í London og sögðu við hann að ef hann vildi fá að borða þyrfti hann að gera húsverk á heimili hjá annarri fjölskyldu. Hann mætti ekki segja neinum hver hann væri í raun og veru ef hann vildi hitta fjölskyldu sína í Sómalíu aftur.

Fyrstu árin í Bretlandi fékk Farah ekki að fara í skóla og dvaldi ávallt á heimili þessarar fjölskyldu sem hann var seldur til. Það var ekki fyrr en hann var tólf ára sem hann fór í skóla.

Þróaði gott samband með kennara sínum

Hann átti það erfitt í skólanum en íþróttakennarinn hans tók eftir því að hann breyttist allur þegar hann hljóp í tímum hjá sér. Þeir urðu góðir vinir og að lokum sagði Farah kennaranum frá því hvernig hann hefði komið til Bretlands. Kennarinn hafði samband við yfirvöld og var hann settur í fóstur hjá sómalískri fjölskyldu í London.

Farah fékk breskan ríkisborgararétt árið 2000 þegar hann var sautján ára gamall og hefur ávallt keppt á frjálsíþróttamótum undir fána Bretlands.

Hann er margfaldur Ólympíumeistari í fimm og tíu þúsund metra hlaupi ásamt því að hafa unnið til fjölda verðlauna á heims- og Evrópumeistaramótum í sömu greinum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×