Erlent

Karl sagður hafa tekið við milljónum frá Katar

Kjartan Kjartansson skrifar
Karl Bretaprins (t.h.) með spúsu sinni, Camillu Parker Bowles.
Karl Bretaprins (t.h.) með spúsu sinni, Camillu Parker Bowles. Vísir/EPA

Karl Bretaprins er sagður hafa tekið við milljónum evra í reiðufé á fundum sínum með fyrrverandi forsætisráðherra Katar. Fulltrúar konungsfjölskyldunnar fullyrða að féð hafi strax runnið til góðgerðasamtaka prinsins.

Breska blaðið Sunday Times fullyrðir í dag að Karl hafi tekið við þremur milljónum evra, jafnvirði um 420 milljóna íslenskra króna, úr hendi Sjeik Hamad bin Jassim bin Jaber al-Thani. Féð hafi verið afhent í skjalatösku, ferðatösku og innkaupapoka á nokkrum fundum.

Tveir ráðgjafar prinsins eru sagðir hafa tekið við peningunum sem þeir fengu afhenta í skjalatösku og handtalið þá. Einkabanki konungsfjölskyldunnar hafi svo tekið við þeim.

Peningarnir voru lagðir inn á bankareikninga Góðgerðasjóðs prinsins af Wales (PWCF) og segir blaðið að ekkert bendi til þess að greiðslurnar hafi verið ólöglegar. Sjóðurinn hefur staðfest að sjeikinn hafi sjálfur óskað eftir því að styrkja sjóðinn með reiðufé.

Þrátt fyrir það eru fregnirnar sagðar vandræðalegar fyrir Karl prins. Lögreglan í London og rannsakar nú hvernig góðgerðasamtök konungsfjölskyldunnar hafa staðið að fjáröflun, þar á meðal með sölu á ýmis konar heiðurstignum. Ásakanir hafa komið fram um að einn nánasti ráðgjafi Karls hafi komið því í kring að sádiarabískur milljarðamæringur yrði heiðraður.

The Guardian segir að al-Thani sé einn ríkasti maður jarðar og hafi verð nefndur „maðurinn sem keypti London“ vegna gríðarlgra fjárfestinga hans í borginni. Hann er einnig eigandi franska knattspyrnuliðsins Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×