Erlent

Vill ekki skipta sér opinberlega af máli Assange

Kjartan Kjartansson skrifar
Borði til stuðnings Julian Assange í Sydney.
Borði til stuðnings Julian Assange í Sydney. AP/Mark Baker

Nýkjörinn forsætisráðherra Ástralíu ætlar ekki að óska þess opinberlega að Bandaríkjastjórn láti mál sitt gegn Ástralanum Julian Assange, stofnanda Wikileaks, niður falla. Bresk stjórnvöld eru tilbúin að framselja hann vestur um haf.

Þrýst hefur verið á áströlsku ríkisstjórnina að grípa inn í eftir að innanríkisráðherra Bretlands skipaði fyrir um að Assange skyldi framseldur til Bandaríkjanna í síðustu viku. Anthony Albanese, nýr forsætisráðherra, vill ekki gefa upp hvort hann hafi rætt við Joe Biden Bandaríkjaforseta um mál Assange.

„Ég ætla mér að leiða ríkisstjórn sem á í háttvísum og viðeigandi samskiptum við bandamenn okkar,“ sagði Albanese við fréttamenn, að sögn AP-fréttastofunnar.

Dóms- og utanríkisráðherra áströlsku stjórnarinnar segja mál Assange hafa dregist of mikið á langinn að það ætti að leiða til lykta.

Assange er ákærður fyrir brot á njósnalögum í Bandaríkjunum. Hann hafi lagt á ráðin um tölvuinnbrot með Chelsea Manning, sem þá var greinandi fyrir leyniþjónustu Bandaríkjahers, þar sem fjöldi sendiráðsskjala var stolið. 

Skjölin voru svo birt á Wikileaks án þess að nöfn fólk væru fjarlægð en það segja saksóknarar að hafi sett hundruð manna í lífshættu, þar á meðal fólk sem aðstoðaði Bandaríkjaher í Írak og Afganistan. Einhverjir þeirra hafi horfið eftir uppljóstranir Wikileaks. Fjölmiðlar sem unnu í fyrstu með Wikileaks að birtingu gagnanna birtu ekki nöfn fólksins. Assange brenndi fljótt flestar brýr að baki sér í samskiptum við fjölmiðlana.

Lögmenn Assange ætla að kæra ákvörðun breska innanríkisráðherrans um að framselja hann. Stella Assange, eiginkona hans, segir að hann sé sóttur til saka fyrir að afhjúpa stríðsglæpi.

Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, mildaði refsingu Chelsea Manning rétt áður en hann yfirgaf embættið árið 2017.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×