Skoðun

Hver hlustar á unga fólkið?

Geir Finnsson, Erlingur Sigvaldason, Emilía Björt Írisardóttir og Anna Kristín Jensdóttir skrifa

Flokkar sem treysta ungu fólki tala til ungs fólks. Kosningaþátttaka ungs fólks er minni en hjá þeim sem eldri eru því fólk mætir ekki og kýs ef það telur engan flokk gæta hagsmuna sinna. Flokkar sem hlusta ekki á raddir ungs fólks geta því ekki búist við því að unga fólkið hlusti á þá.

Stofnun Viðreisnar markaði þáttaskil. Uppreisn, ungliðahreyfing Viðreisnar var stofnuð á undan flokknum sjálfum og unga fólkið hefur spilað stórt hlutverk í stefnumótun flokksins frá upphafi. Þetta á við í borgarstjórnarframboðinu eins og öðru starfi flokksins.

Yngstu kjósendurnir eru jákvæðastir í garð Borgarlínu, vilja helst að flugvöllurinn verði færður úr Vatnsmýrinni og leggja meiri áherslu á umhverfis- og loftslagsmál en aðrir hópar. Fyrir þetta stendur Viðreisn. Viðreisn veit líka að lausnin á húsnæðisvanda ungs fólks felst í því að byggja fleiri og ódýrari íbúðir. Þess vegna hefur aldrei verið byggt jafn mikið í Reykjavík og á liðnu kjörtímabili.

Allir flokkar eru með fólk undir þrítugu á lista en ekki allir treysta því til að sitja í toppsætum. Þar er Viðreisn í sérflokki líkt og sést á meðfylgjandi mynd.

Framboðslisti Viðreisnar er af sömu ástæðu með lægri meðalaldur frambjóðenda en nokkur annar flokkur eða 40,2 ár.

Þétt byggð og góðar almenningssamgöngur eru framtíðin. Valfrelsi í skólamálum er framtíðin. Unga fólkið er framtíðin.

Framtíðin felst ekki í því að tefja framkvæmdir fyrir Borgarlínu eða setja uppbyggingu í Skerjafirði og þar með yfir 100 stúdentaíbúðir, í átakafarveg. Það er sama gamaldags pólitíkin og hefur fælt ungt fólk frá þátttöku í stjórnmálum áratugum saman. Undir því sitjum við ekki þegjandi.

Undirrituð eru ungir frambjóðendur á topp 10 lista Viðreisnar í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022. Við trúum því að stjórnmálaflokkar eigi að hlusta á raddir ungs fólks og veita þeim vægi. Þess vegna erum við í Viðreisn.

Höfundar skipa 4., 6., 7., og 9. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. 




Skoðun

Sjá meira


×