Klinkið

Þaulsætnir embættismenn í íslenskri stjórnsýslu

Ritstjórn Innherja skrifar
Forstjóri ÁTVR hefur verið við stjórnvölinn í 17 ár. 
Forstjóri ÁTVR hefur verið við stjórnvölinn í 17 ár. 

Innherji greindi frá því í síðustu viku að forstjórar Fjarskiptastofu og Samkeppniseftirlitsins hefðu setið lengur í embætti en gengur og gerist á Norðurlöndum. Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Fjarskiptastofu hefur setið í 20 ár, mun lengur en norrænir starfsbræður hans, og það sama gildir um Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, sem hefur stýrt stofnuninni í nærri 17 ár.

Þaulseta embættismanna er hins vegar ekki bundin við eftirlitsstofnanir. Það má finna mörg dæmi, kannski of mörg að sumra mati, um stofnanir og ríkisfyrirtæki þar sem engin breyting hefur orðið á yfirstjórninni í 15 til 20 ár.

Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, hefur til að mynda stýrt einokunarkeðjunni í 17 ár og Laufey Guðjónsdóttir hefur veitt Kvikmyndamiðstöð Íslands forstöðu í 19 ár. Sömu menn, Árni Snorrason og Ólafur Hjálmarsson, hafa stýrt Veðurstofunni annars vegar og Hagstofunni hins vegar í 14 ár.

Margrét Hallgrímsdóttir, sem var á dögunum ráðin til skrifstofu forsætisráðuneytisins, hafði verið Þjóðminjavörður í 22 ár, og engin breyting hefur orðið á yfirstjórn Landsbókasafnsins og Landskerfi bókasafna í 15 ár.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hitti naglann á höfuðið í umfjöllun Innherja þegar hann benti á að auðvitað væri ekki æskilegt að menn sætu við stjórnvöl sömu stofnunarinnar um aldur og ævi.

„Sú hætta er fyrir hendi að menn nálgist stofnunina eins og hún sé þeirra eigin,“ sagði hann. Þótt gagnrýnin eigi sérstaklega við eftirlitsstofnanir, sem hafa víðtæk og vandmeðfarin völd, nær hún einnig til annarra stofnana. Það er nauðsynlegt að fá ný viðhorf og nýja strauma inn í stofnanir með reglubundnum hætti.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.






×