Handbolti

Benti á breytingu hjá „krosstrénu“ Ómari Inga

Sindri Sverrisson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skoraði úr 21 af 25 vítum sínum á Evrópumótinu í janúar og leiddi íslenska liðið áfram að 6. sæti.
Ómar Ingi Magnússon skoraði úr 21 af 25 vítum sínum á Evrópumótinu í janúar og leiddi íslenska liðið áfram að 6. sæti. Getty/Nikola Krstic

Eftir að hafa verið „herra áreiðanlegur“ á vítalínunni fyrir bæði Magdeburg og íslenska landsliðið í handbolta hefur Ómar Ingi ekki nýtt vítin sín eins vel að undanförnu.

Handboltasérfræðingurinn Rasmus Boysen benti á þetta á Twitter. Ómar Ingi hafði þá klikkað á tveimur af þremur vítaköstum sínum í sigri Magdeburg gegn Wetzlar í þýsku 1. deildinni á sunnudaginn.

Ómar Ingi hefur þar með spilað sex leiki í röð þar sem hann klikkar á að minnsta kosti tveimur vítaköstum. Ástæðan fyrir því að Boysen bendir á þetta er að fram að því hafði Ómar leikið 14 leiki í röð fyrir Magdeburg og Ísland án þess að tvö víti færu í súginn í sama leiknum. 

Svo bregðast krosstré sem önnur en Ómar Ingi hafði til að mynda nýtt 21 af 25 vítum sínum á Evrópumótinu í janúar þar sem hann fór á kostum.

Ómar er engu að síður næstmarkahæstur í þýsku 1. deildinni með 173 mörk, átta mörkum á eftir Hans Lindberg og tveimur mörkum á undan Bjarka Má Elíssyni. Magdeburg er auk þess með sex stiga forskot á toppi deildarinnar og nálgast sinn fyrsta Þýskalandsmeistaratitil í yfir tvo áratugi.

Ómar og Bjarki eru með íslenska landsliðinu í Austurríki þar sem framundan er fyrri leikurinn við Austurríki um sæti á HM. Liðin mætast í Bregenz á morgun klukkan 16 og seinni leikurinn er svo á Ásvöllum á laugardaginn klukkan 16.

Auk þess að vera á toppi þýsku deildarinnar er Magdeburg, sem einnig er með Gísla Þorgeir Kristjánsson innanborðs, komið í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar þar sem liðið mætir Nantes 26. apríl og 3. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×