Handbolti

Birgir Steinn: Ég spila ekki með Haukum á næsta tímabili

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Birgir Steinn Jónsson, leikmaður Gróttu.
Birgir Steinn Jónsson, leikmaður Gróttu. Vísir/Hulda Margrét

Einn allra besti leikmaður tímabilsins í Olís-deild karla, Birgir Steinn Jónsson leikmaður Gróttu, fékk að líta rautt spjald í leik síns liðs í kvöld. Grótta vann þó lokaleik sinn á tímabilinu með fimm mörkum.

„Við vorum bara í rauninni sárir eftir síðasta leik og mættum bara með blóð á tönnunum og sýndum í dag að við eigum alveg skilið að vera ofar heldur en taflan sýnir. Þetta tapaðist kannski ekki á þessum leik gegn ÍBV, en svona þegar maður horfir yfir tímabilið þá svona kannski fleiri leikir sem eru súrari en aðrir og maður hugsar svona, það er stutt á milli í þessu og við erum helvíti nálægt því,“ sagði Birgir.

Birgi Steini fannst rauða spjaldið sem hann hlaut í leik kvöldsins ekki vera rétt, en Birgir Steinn sló Allan Norðberg, skyttu KA, í andlitið.

„Ég ætla að leyfa ykkur að horfa á atvikið aftur og dæma um það. Mér fannst það ekki en ég veit ekki hvernig þetta lítur út í sjónvarpinu.“

Birgi fannst sitt lið standa sig vel í vetur, en hann sjálfur endaði sem markahæsti leikmaður liðsins.

„Mér líður vel og er í flottu umhverfi og með flotta þjálfara sem hafa trú á manni. Maður segir kannski að maður spilar eins vel og þjálfararnir hafa trú á manni. Það bara gengur vel og við erum með flott lið í kringum okkur. Við erum búnir að sýna frábæran stíganda í vetur og kannski ekki að spila vel svona í byrjun tímabils, en það er búið að vera stígandi í þessu. Eins og ég segi þá erum við ansi nálægt því að vera í topp átta, en við mætum með blóð á tennurnar á næsta ári og þá verðum við hærra. Ég lofa þér því.“

Haukar hafa rennt hýru auga í átt að Birgi Steini fyrir næsta keppnistímabil, en hann sjálfur þver tekur fyrir að hann muni leika með Hafnarfjarðar liðinu á næsta tímabili.

„Nei, ég spila ekki með Haukum á næsta tímabili.“

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, staðfesti einnig í kvöld að Birgir Steinn Jónsson mun leika með Gróttu næsta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×