Erlent

Þing rofið og boðið til nýrra kosninga í Pakistan

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Imran Khan forsætisráðherra pakistan hefur rofið þing og boðað til nýrra þingkosninga.
Imran Khan forsætisráðherra pakistan hefur rofið þing og boðað til nýrra þingkosninga. Getty/Parker Song

Imran Khan forsætisráðherra Pakistan hefur rofið þing og boðað til nýrra þingkosninga. Khan tilkynnti þetta eftir að hafa naumlega sloppið við að vantrauststillaga yrði samþykkt á þinginu.

Arif Alvi forseti landsins hefur samþykkt þingrofið og Khan boðað nýjar kosningar. Mikil stjórnmálaóvissa hefur ríkt undanfarna daga eftir að vantrausti var lýst yfir geng honum af stjórnarandstöðunni. Forseti þingsins kom í veg fyrir að atkvæðagreiðsla um tillöguna færi fram og sagði hana stangast á við stjórnarskrána. 

Stjórnarandstaðan hefur heitið því að fara lengra með vantraustsyfirlýsinguna og fá ákvörðun þingforsetans snúið við. Bilawal Bhutto Zardari leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins Þjóðarflokks Pakistan sagði við fréttamenn í dag að málinu verði skotið til Hæstaréttar landsins í dag.

Stjórnarandstaðan hefur verið gagnrýnin á Khan og sagt honum hafa mistekist að koma efnahagi landsins á réttan kjöl og segja spillingu hafa grasserað á valdatíð hans. Khan heldur því fram að vantrauststillagan hafi verið af frumkvæði Bandaríkjamanna, yfirlýsing sem yfirvöld í Washington segja enga stoð hafa í raunveruleikanum. 

Khan var vinsæll krikketleikmaður áður en hann sneri sér að pólitíkinni árið 2018 og vann yfirburðarsigur með stuðningi pakistanska herins. Enginn einasti forsætisráðherra hefur klárað fimm ára kjörtímabilið frá því að Pakistan fékk sjálfstæði frá Bretlandi árið 1947. Herforingjar hafa þá stjórnað landinu reglulega. 

Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar Farrukh Habib sagði í dag að nýjar kosningar verði haldnar innan níutíu daga þó svo að ákvörðunin sé þegar uppi er staðið í höndum forseta og landskjörstjórnar. Ríkisstjórn Khans hefur verið leyst upp en hann mun fara áfram með stöðu forsætisráðherra fram að kosningum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×