Fótbolti

Özil settur út af sakramentinu hjá Fenerbahce

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mesut Özil spilar ekki fyrir Fenerbahce á næstunni.
Mesut Özil spilar ekki fyrir Fenerbahce á næstunni. getty/Seskim Photo

Mesut Özil hefur verið tekinn út úr leikmannahópi Fenerbahce um óákveðinn tíma. Engin ástæða hefur verið gefin fyrir ákvörðuninni.

Özil var fyrirliði Fenerbahce í 2-1 sigri liðsins á Konyaspor í tyrknesku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Hann var tekinn af velli í hálfleik.

Í dag greindi Fenerbahce frá því að Özil og Ozan Tufan væru ekki lengur hluti af leikmannahópi liðsins um óákveðinn tíma. Ekki er vitað af hverju þeir voru settir út af sakramentinu.

Ólíklegt er að það tengist frammistöðu Özils á tímabilinu. Hann hefur skorað átta mörk og lagt upp tvö í 22 deildarleikjum í vetur. Fenerbache er í 3. sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar.

Özil gekk í raðir Fenerbahce í janúar í fyrra eftir að samningi hans við Arsenal var rift. Hann skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við Fenerbahce.

Hinn 33 ára Özil hefur sterk tengsl við Tyrkland en báðir foreldrar hans eru þaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×