Atvinnulíf

„Þarna erum við með risastóran hóp sem hefur bara gleymst að tala við“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Allt of mörg fyrirtæki og stofnanir eru að gleyma að tala við fjölmennan hóp Íslendinga sem hafa annað móðurmál. Til dæmis hinn fjölmenna hóp Pólverja sem hér búa. Fv.: Hallur Jónasson, Jón Heiðar Gunnarsson og Weronika Siodla hjá SAHARA hvetja fleiri til þess að útfæra auglýsingar og annað efni á fleiri tungumálum en íslensku. Sjálf hafa þau góða reynslu af því og ætla hiklaust að halda áfram á þeirri vegferð að ná til sem flestra með sínum verkefnum.
Allt of mörg fyrirtæki og stofnanir eru að gleyma að tala við fjölmennan hóp Íslendinga sem hafa annað móðurmál. Til dæmis hinn fjölmenna hóp Pólverja sem hér búa. Fv.: Hallur Jónasson, Jón Heiðar Gunnarsson og Weronika Siodla hjá SAHARA hvetja fleiri til þess að útfæra auglýsingar og annað efni á fleiri tungumálum en íslensku. Sjálf hafa þau góða reynslu af því og ætla hiklaust að halda áfram á þeirri vegferð að ná til sem flestra með sínum verkefnum.

Fyrirtæki og stofnanir eru að gleyma að tala við fjölmennan hóp Íslendinga.

„Auglýsingar eru ekki bara að selja þér pylsur, þær geta líka komið á framfæri mikilvægum upplýsingum um það sem er að gerast í þjóðfélaginu,“ segir Hallur Jónasson viðskipta- og gæðastjóri hjá auglýsingastofunni SAHARA sem hvetur fyrirtæki, stofnanir og auglýsingastofur til að gleyma ekki þeim fjölmenna hópi Íslendinga sem hafa annað móðurmál.

Sem dæmi má nefna búa rúmlega 20 þúsund Pólverjar á Íslandi, sem er meiri fjöldi en allir íbúar á Akureyri og nágrenni til samans.

Síðustu misseri hefur SAHARA lagt aukna áherslu á að útfæra auglýsinga- og markaðsefni á íslensku, pólsku og ensku og oft á fleiri tungumálum líka. Hallur segir að þau hjá SAHARA séu staðráðin í að halda áfram á þeirri vegferð og hvetur aðra til að gera það líka.

Eftirspurnin eftir upplýsingunum til staðar

Hallur segist reyndar viss um að þróunin verði í þá átt að sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir munu leggja áherslu á að miðla öllu sínu efni á fleiri tungumálum en íslensku.

Þetta geti átt við auglýsingaefni en eins líka upplýsingar á vefsvæðum eða spjallþjónustusvæðum. Þar dugi ekki til að fólk styðjist við Google Translate.

Hjá SAHARA hefur til að mynda verið starfandi pólskumælandi starfsmaður um nokkra hríð. Það er Weronika Siodla en hún hefur búið á Íslandi í þrjú ár og starfar sem samfélagsmiðlasérfræðingur hjá SAHARA.

Weronika segir að matvörubúðir, veitingastaðir, pizzastaðir og bifvélavirkjar ættu sérstaklega að huga að auglýsingum á pólsku, ekki síst tengt árstíða- og tímabundnum tilboðum.

„Núna er helsti vettvangurinn þar sem fólk finnur þessa þjónustu er með því að spyrjast fyrir í Facebook-hópum tileinkuðum pólska samfélaginu á Íslandi. Það væri gott ef auglýsendur gætu talað beint til þessa hóps,“ segir Weronika.

Weronika hvetur auglýsendur til að útfæra auglýsingarnar sínar á pólsku enda sé einn helsti vettvangur Pólverja í dag að spyrjast fyrir í Facebook-hópum tileinkuðum pólska samfélaginu. „Það væri gott ef auglýsendur gætu talað beint til þessa hóps,“ segir Weronika.

Jón Heiðar Gunnarsson, birtingastjóri SAHARA, tekur undir með Weroniku og Halli. Sjálfur hefur hann starfað í geiranum um árabil og segir nærtækast að taka dæmi um þann ávinning sem í þessu felst fyrir auglýsendur.

„Árið 2020 opnaði Vísir fréttasvæði á vef sínum með fréttir á pólsku. SAHARA hefur nýtt sér þetta svæði sérstaklega fyrir pólska netborða. Smellhlutfallið, eða það sem á ensku kallast click through rate, á þessa pólsku borða er með því allra hæsta sem ég hef séð á nokkrum borðum.“

Skattgreiðendur sem eiga rétt á upplýsingum

Hallur, Jón Heiðar og Weronika leggja áherslu á að það að útfæra efni á fleiri tungumálum en íslensku sé verkefni sem margir þurfa að taka til sín.

Og mun fleiri en nú gera.

„Mér finnst til dæmis augljóst að allt markaðsefni sem kemur frá ríki og sveitarfélögum ætti að vera líka á pólsku og ensku, og skjóta sérstaklega á þessa hópa með auglýsingum á samfélagsmiðlum og netmiðlum á ensku og pólsku. Mikið af fólki af erlendu bergi brotnu þekkir ekki nógu vel réttindi sín gagnvart hinu opinbera, þó þeir borgi skatta eins og aðrir og eigi skilið að vera upplýstir,“ segir Hallur.

Sem dæmi nefna þau verkefni sem SAHARA hefur unnið fyrir Neyðarlínuna og gengur út á vitundarvakningu um að ofbeldi er alls konar.

Þetta efni vann stofan á íslensku, ensku og pólsku enda mikilvægt að upplýsingarnar berist til allra á Íslandi. Líka þeirra sem hafa annað móðurmál en íslensku.

Til að ná til hópsins voru auglýsingarnar birtar á samfélagsmiðlum og eins á pólska fréttasvæði Vísis. Mælingar sýni að svo sannarlega náðu skilaboðin í gegn til markhópsins.

Annað dæmi sem þau nefna eru myndbönd sem SAHARA vann fyrir lögregluna tengt ofbeldi og framleidd voru í upphafi COVID-19. Þau myndbönd voru útfærð á fimm tungumálum: íslensku, ensku, pólsku, arabísku og rússnesku.

Jón Heiðar hefur starfað við auglýsingabirtingar um árabil og segir fyrirtæki ekki eiga að hræðast að útfæra auglýsingar á fleiri tungumálum. Til dæmis staðsetji SAHARA oft auglýsingar á pólsku á pólsku fréttasvæði Vísis sem Jón Heiðar segi að skili einu allra hæsta smellihlutfalli netborða sem hann hefur séð. Það sé vegna þess að markhópurinn sé hreinlega þakklátur fyrir að fá þessar auglýsingar á sínu móðurmáli. 

Góðu ráðin

Hallur, Weronika og Jón Heiðar segja fyrirtæki og stofnanir ekki þurfa að hræðast að verkefnið sé flókið eða dýrt.

Það sé vel hægt að taka fyrstu skrefin á einfaldan hátt.

„Sem dæmi er Parki viðskiptavinur okkar. Ég kom með þá hugmynd að ná til pólskra íbúa landsins með targetuðum auglýsingum á samfélagsmiðlum, en þeir voru ekkert að fara að láta þýða alla heimasíðuna sína á pólsku. Þá datt mér í hug að við myndum bara gera eina síðu á vefnum á pólsku og að þar væru smá upplýsingar um fyrirtækið, vörur og hvatning um að hafa samband því sölumenn sem myndu taka vel á móti þeim. Síðan útfærðum við auglýsingar á pólsku sem studdust við þessa vefsíðu sem lendingarsíðu,“ segir Hallur.

Weronika segir samt mikilvægt að fá Pólverja til að þýða texta á pólsku, eða aðra þýðendur. Satt best að segja komi það oft fyrir að Pólverjar hlæja af auglýsingum sem greinilega hafi verið þýddar með Google Translate.

Sjálf vill hún líka benda á ávinninginn sem felst í því að fyrirtæki og stofnanir séu með upplýsingar á ensku. Til dæmis stofnanir í almannaþjónustu, bankar, skattstjóri, heilbrigðiskerfið og fleiri.

„Það getur sparað öllum tíma og peninga, því þá þarf starfsfólk ekki að svara erindum í gegn um síma eða tölvupóst,“ segir Weronika.

Hallur segir innflytjendur vera risastóran hóp sem fyrirtæki og stofnanir hreinlega gleymi of oft tala við. Þetta eigi ekki aðeins við um auglýsingar heldur líka allar upplýsingar sem fyrirtæki og stofnanir eru að veita. Þá er ótalið að nefna ýmiss konar vitundarvakningu. Til dæmis gegn kynferðisofbeldi sem mikilvægt er að komist þá til skila til allra. Það takist ekki, nema að efnið sé útfært á fleiri tungumálum en íslensku. 

Þegar verið er að meta útfærslur og upplýsingar benda þau líka á að gott er að hafa í huga að hópurinn sem verið er að tala til, er oft ólíkur innbirgðis. 

Sumir eru innflytjendur sem hafa búið hér lengi, aðrir farandverkamenn eða námsmenn. 

En þó allt fólk sem hefur áhuga á íslenskri menningu og á það jafnvel til að verða búsett hér lengur en upphaflega var áætlað.

Sem dæmi má nefna sögu Weroniku sjálfrar. Í upphafi hafði hún áhuga á að heimsækja Ísland vegna þess að það er rómað fyrir að vera svo fallegt land. Weronika útskrifaðist úr Kozminski háskólanum í Varsjá og tók skiptinámsönn í Háskólanum í Reykjavík. Og er hér enn!

Loks vilja Hallur, Jón Heiðar og Weronika ítreka hversu þakklátur hópurinn er, sem verið er að tala við. Það sýni viðtökur við til dæmis menningarviðburðum á pólsku. Þar megi nefna kvikmyndasýningar í Bíó Paradís, leiksýningar PóliS í Borgarleikhúsinu og pólsk menningardagskrá í Bókasafni Hafnarfjarðar. Allt eru þetta viðburðir sem hafa verið auglýstir á pólsku þar sem birtingum er beint að pólskumælandi markhópum á samfélagsmiðlum.

„Það er greinilegt að tungumálið skiptir miklu máli varðandi svörun hjá þessum hópi og fólk kann vel að meta þegar hugsað er til þeirra í framleiðslu á markaðsefni,“ segir Jón Heiðar.

Þarna erum við með risastóran hóp sem hefur bara gleymst að tala við. Þeir sem hafa pólsku að móðurmáli vilja líka vita hvar þeir geta skipt um dekk á bílnum eða hvaða dag vikunnar er tilboð á pítsu. 

Svo er núna í gangi vitundarvakning um kynferðisofbeldi og henni þarf auðvitað að koma á framfæri til mismunandi hópa samfélagsins,“ 

segir Hallur og bætir við:

„Það skiptir einfaldlega máli að tala við fólk á þeirra eigin móðurmáli.“


Tengdar fréttir

Gögn oft leiðin til að slá í gegn hjá neytendum

Nýlega sló auglýsingaherferð Íslandsstofu rækilega í gegn á Facebook. En hvað er það nýjasta nýtt í auglýsinga- og markaðsmálunum á Íslandi og hverjar eru helstu áskoranirnar?

Fyrstu fundirnir eins og svakaleg Hollywoodmynd

Óvissa og spenna, engar fyrirmyndir til, alls kyns hugmyndir, krísustjórnun og einhver veira frá Kína. Svona var staðan þegar verkefnið „Við erum öll almannavarnir" hófst.

Þurfa sterkt vörumerki til að laða til sín hæfasta starfsfólkið

„Það sem er mest vaxandi anginn í vörumerkjastjórnun í dag er það sem kallast á ensku employer branding, þar sem fyrirtæki eru að byggja sig upp sem vörumerkti til þess að geta laðað til sín hæfasta starfsfólkið,“ segir Friðrik Larsen stofnandi brandr og dósent við Háskóla Íslands.

„Ekki vera eitthvað fyrir alla, vertu allt fyrir einhverja“

Samkvæmt öllum fræðum er mikilvægt að sinna auglýsinga- og markaðsmálum á krepputímum. Fyrir mörg fyrirtæki, sérstaklega þau smærri, er þetta hægara sagt en gert. Við leituðum til Unnar Maríu Pálmadóttur hjá KVARTZ og báðum um nokkur góð ráð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×