Fótbolti

Rüdiger fyrir Maguire?

Atli Arason skrifar
Harry Maguire og Antonio Rüdiger
Harry Maguire og Antonio Rüdiger Getty Images

Manchester United bætist við í kapphlaupið um undirskrift Antonio Rüdiger á meðan Harry Maguire gæti verið á útleið hjá Rauðu djöflunum.

Antonio Rüdiger er sagður vera með fulla einbeitingu á því að klára núverandi tímabil með Chelsea eins vel og mögulegt er og ætlar svo að taka ákvörðun varðandi framtíð sína eftir tímabilið. Samningur Rüdiger við Chelsea rennur út í sumar en hann segist sjálfur vilja vera áfram hjá félaginu en að aðrir aðilar innan félagsins ráða því samkvæmt Þjóðverjanum.

Rüdiger fær 100.000 pund í vikulaun á núgildandi samning en er sagður vilja fá 225.000 pund á viku í nýjum samningi við Chelsea. Sú upphæð myndi gera hann að fjórða launahæsta leikmanni félagsins á eftir Timo Werner, N‘Golo Kante og Romelu Lukaku.

Chelsea er þó einungis tilbúið að borga Rüdiger 140.000 pund á viku á meðan Real Madrid og Paris Saint-Germain eru sögð vera reiðubúin að borga Rüdiger allt að 400.000 pundum í vikulaun.

Manchester United hefur nú bæst við í kapphlaupið um Rüdiger. Ralf Rangnick á að vera mikil aðdáandi af leikmanninum en Rangnick er orðinn þreyttur á Harry Maguire og óljóst er hvort enski landsliðsmaðurinn eigi framtíð fyrir sér á Old Trafford.

Fréttir gærdagsins að Roman Abramovich, eigandi Chelsea, sé að stíga til hliðar mun eflaust hafa einhver áhrif á framvindu samningamála hjá Rüdiger.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×