Fótbolti

Gamli FH-ingurinn kom Fredrikstad á­fram í bikarnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brandur Hendriksen var með eitt mark og tvær stoðsendingar í bikarsigri Fredrikstad.
Brandur Hendriksen var með eitt mark og tvær stoðsendingar í bikarsigri Fredrikstad. vísir/vilhelm

Júlíus Magnússon og félagar í Fredrikstad eru komnir í átta liða úrslit norsku bikarkeppninnar eftir sigur á Raufoss í dag, 2-3.

Í 32-liða úrslitunum gerði Fredriksstad sér lítið fyrir og sló Rosenborg úr leik. Í dag mætti liðið svo Raufoss sem leikur í B-deildinni.

Fyrri hálfleikurinn var einkar fjörugur en fjögur mörk litu dagsins ljós á sautján mínútna kafla.

Henrik Johansen kom Fredrikstad yfir á 12. mínútu en Torjus Engebakken jafnaði fyrir Raufoss aðeins mínútu seinna. Gestirnir náðu aftur forystunni þegar Sondre Sorlokk skoraði á 24. mínútu en Sander Nordbo jafnaði aftur fyrir heimamenn fimm mínútum síðar.

Brandur Hendriksson, fyrrverandi leikmaður FH, lagði upp bæði mörk Fredrikstad í fyrri hálfleik og hann skoraði svo sigurmark liðsins á 49. mínútu. Færeyingurinn fékk tækifæri til að skora sitt annað mark undir lok leiks en klikkaði á vítaspyrnu.

Júlíus lék allan leikinn á miðjunni hjá Fredrikstad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×