Joselu hetjan þegar Real Madrid fór í úr­slit í enn eitt skiptið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joselu fagnar af innlifun eftir að hafa skorað sigurmark Real Madrid gegn Bayern München.
Joselu fagnar af innlifun eftir að hafa skorað sigurmark Real Madrid gegn Bayern München. getty/David Ramos

Joselu var hetja Real Madrid þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu með 2-1 endurkomusigri á Bayern München í kvöld. Madrídingar unnu einvígið, 4-3 samanlagt.

Real Madrid mætir Borussia Dortmund í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley 1. júní.

Bayern komst yfir með marki Alphonsos Davies á 68. mínútu. Joselu kom inn á sem varamaður á 81. mínútu og sjö mínútum síðar jafnaði hann eftir slæm mistök Manuels Neuer í marki gestanna.

Í uppbótartíma skoraði Joselu svo öðru sinni eftir fyrirgjöf Antonios Rüdiger og tryggði Real Madrid sæti í sjötta úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu ellefu árum. Real Madrid hefur unnið keppnina oftast allra, eða fjórtán sinnum.

Neuer í ham

Fyrri hálfleikurinn var frekar lokaður en Madrídingar fengu bestu færin og Bæjarar gátu þakkað Neuer fyrir að staðan var markalaus í hálfleik.

Þýski landsliðsmarkvörðurinn var tvívegis frábærlega í sömu sókninni, fyrst frá Vinícius Júnior og svo frá Rodrygo. Seint í fyrri hálfleik sló Neuer svo hættulega fyrirgjöf Vinícius Júnior í horn. Bayern komst næst því að skora þegar Harry Kane átti skot sem Andriy Lunin varði vel.

Í upphafi seinni hálfleiks var Rodrygo hársbreidd frá því að koma Real Madrid yfir eftir undirbúning Vinícius Júnior en Brassinn setti boltann rétt framhjá marki Bayern. Skömmu síðar átti Rodrygo skot beint úr aukaspyrnu sem Neuer varði. Hann varði svo aftur frá Vinícius Júnior andartaki seinna.

Á 68. mínútu átti Kane átti sendingu á Davies, sem kom inn á í fyrri hálfleik. Kanadamaðurinn fór á hægri fótinn og skoraði með þrumuskoti sem Lunin réði ekki við.

Skömmu síðar skoraði Nacho, fyrirliði Real Madrid, en markið var dæmt af vegna brots hans á Joshua Kimmich.

Ótrúlegur lokakafli

Kane fékk tækifæri til að koma Bæjurum í 2-0 en skaut í hliðarnetið. Þegar átta mínútur voru eftir fékk Vinícius Júnior dauðafæri en hitti ekki markið.

Brassinn gafst ekki upp á á 88. mínútu átti hann skot sem Neuer varði. Hann missti boltann hins vegar frá sér, varamaðurinn Joselu var fyrstur að átta sig, skoraði og jafnaði í 1-1.

Madrídingar fengu blóð á tennurnar við þetta, drukku í sig stemmninguna á Santiago Bernabéu og í uppbótartíma skoraði Joselu eftir sendingu Rüdigers.

Matthijs de Ligt skoraði undir lok uppbótartímans en dómarinn Szymon Marciniak flautaði og dæmdi markið af. En þar sem aðstoðardómarinn lyfti flagginu sínu of snemma var ekki hægt að skoða það á myndbandi og Bæjarar sátu eftir með sárt ennið. Lokatölur 2-1, Madrídingum í vil.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira