Innherji

Þörf á aðhaldi hjá hinu opinbera nú þegar efnahagsbatanum vindur fram

Hörður Ægisson skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er formaður fjárlaganefndar.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er formaður fjárlaganefndar. Stöð

Efnahagsleg áhrif faraldursins eru í rénun og nauðsynlegt er að áframhald verði á því að opinber fjármálastefna og peningamálstefna Seðlabankans séu í takt við hvor aðra í aðgerðum til þess að viðhalda stöðugleika og jafnvægi í hagkerfinu.

„Stuðla þarf að aðhaldi í opinberum rekstri eftir því sem efnahagsbatanum vindur fram samhliða því sem Seðlabankinn hefur nú hækkað stýrivexti í 2,75 prósent líkt og var fyrir heimsfaraldur,“ segir í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar vegna breytingartillögu um fjármálastefnu fyrir árin 2022 til 2026. Minnka þurfi mótvægisaðgerðir vegna faraldursins og vinna að því að rétta af halla í rekstri hins opinbera en þannig megi draga úr framleiðsluspennu sem aftur styðji við peningastefnuna.

Í breytingartillögu meirihlutans er lagt til að hámark skulda hins opinbera samkvæmt stefnunni verði hækkað um 2 prósentur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu fyrir öll árin á tímabilinu – mest upp í 51,5 prósent árið 2026 – en í lok þess er ráðgert að skuldaaukningin muni stöðvast. 

Það byggist á lakari afkomu ríkissjóðs á þessu ári en fyrst var áætlað þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram en hallinn verður 186,4 milljarðar króna, eða sem nemur 5,2 prósentum af landsframleiðslu, sem hækkar lánsfjárþörf ríkisins. Þá eykst útgjaldaþörfin einnig á árinu 2022 sakir viðbótarráðstafana ríkissjóðs vegna faraldursins sem meta má á um 0,2 prósent af landsframleiðslu.

Þá bendir meirihlutinn einnig á að gera þarf endurmat á innlendum skuldum ríkissjóðs í árslok 2021, sem námu samtals 1.117 milljónum króna, en þær séu að stórum hluta verðtryggðar og aukin verðbólga muni því hafa þau áhrif að höfuðstóll þeirra lána hækkar og vaxtagjöld aukast.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans verður verðbólgan í ár að jafnaði 5,3 prósent og 3,4 prósent á því næsta ári.

Á tímabili fjármálastefnunnar munu lántökur standa að hluta undir fjármögnun á rekstri hins opinbera en skuldastýring þess snýst að stórum hluta um endurfjármögnun lána.

„Þar verður að hafa í huga hvernig matsfyrirtæki bregðast við efnahagsþróun á Íslandi og hvaða lánskjör eru í boði. Eins og sakir standa getur hið opinbera tekið lán á hagstæðum kjörum. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa ríkissjóðs er nú um 4,6 prósent og 0 prósent á verðtryggðum skuldabréfum. Sveitarfélög geta fengið verðtryggð lán á um 1,2 prósent vöxtum. Til skamms tíma gætu alþjóðlegir vextir hækkað í ljósi mikillar verðbólgu. Til lengri tíma litið er þó líklegt að áfram muni bjóðast góð kjör á skuldabréfum hins opinbera,“ segir í áliti meirihluta fjárlaganefndar.

Tekið er fram að miðað við flest önnur lönd í Evrópu sé skuldastaða hins opinbera á Ísland góð og að skuldahlutfallið sem kynnt er í fjármálastefnunni sé viðráðanlegt.

Hafa þurfi hins vegar í huga að samkvæmt skuldareglu laganna um opinber fjármál eru ófjármagnaðar lífeyrissjóðsskuldbindingar ekki taldar með skuldum. Þær námu um 746 milljörðum króna við lok árs 2020. Umtalsverðar fjárhæðir eru árlega í fjárlögum til að koma til móts við þennan halla í lífeyrisskuldbindingum, til dæmis 8 milljarðar í ár, en þær duga þó ekki til að lækka skuldbindingar á næstu árum.

Meirihluti fjárlaganefndar vekur einnig athygli á þeirri áskorun sem felst í breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar fyrir opinber fjármál. Til ársins 2026 verði ekki veruleg breyting á aldurssamsetningunni samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar en um þessar mundir er hlutfall 65 ára og eldri um 15 prósent af þjóðinni og þeir sem eru 85 ára og eldri eru um 1,8 prósent.

„Til lengri tíma litið, fram yfir 2026, munu þessi hlutföll hækka. Samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, til dæmis hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), teljast aldraðir vera 65 ára og eldri en fólk á vinnualdri 20– 64 ára. Hlutfall aldraðra á móti fólki á vinnufærum aldri er nú um 24,4 prósent og verður orðið 25,4 prósent árið 2026. Á næstu áratugum mun þetta hlutfall hækka um nær 14 prósentur eða í um 38 prósent árið 2050,“ segir í áliti nefndarinnar.

Þrátt fyrir þessa þróun verður þetta hlutfall mun hagstæðara á Íslandi en í samanburði við önnur Evrópulönd.

Nefndin tekur hins vegar fram að hækkun hlutfalls 65 ára og eldri verði áskorun sem þarf að takast á við í opinberum fjármálum. Þar þurfi að líta til atvinnuþátttöku, framleiðni og fjármögnunar á velferðarþjónustu.


Tengdar fréttir

Ekki augljóst að fjárlögin muni styðja við lágt vaxtastig

Það er ekki augljóst að rekstur ríkissjóðs á næstunni, eins og hann birtist í nýju fjárlagafrumvarpi sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í gær, muni leggjast sérstaklega á sveif með að styðja við peningastefnu Seðlabanka Íslands í því skyni að viðhalda lægri vöxtum en ella.

Fjárlögin til marks um betri stöðu en víðast hvar í heiminum

Nýtt fjármálafrumvarp varpar ljósi á það hversu vel Ísland stendur í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að efnahagsmálum. Greinendur sem Innherji ræddi við benda á að ríkissjóður hafi rúmt svigrúm til að fjármagna sig með öðrum leiðum en í gegnum peningaprentun Seðlabankans og að önnur ríki hafi þurft að grípa til stórfelldari aðgerða í ríkisfjármálum og peningamálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×