Innlent

Felur lög­manni að krefjast upp­lýsinga um boðun aðal­fundar

Árni Sæberg skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir fékk endurnýjað umboð til formanns í kosningum á þriðjudag.
Sólveig Anna Jónsdóttir fékk endurnýjað umboð til formanns í kosningum á þriðjudag. Stöð 2/Egill

B-listinn undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur hefur falið lögmanni að krefjast þess að upplýst verði um hvenær boðað verði til aðalfundar Eflingar. Sólveig Anna, sem vann á dögunum formannskosningar í Eflingu, segir núverandi formann og varaformann sitja umboðslausa. 

Sólveig Anna segir þær Agnieszku Ewu Ziolkowska og Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, sitjandi formann og varaformann, ekki hafa haft neitt samband við sig í kjölfar öruggs sigurs hennar í formannskosningum á dögunum. Hvorki til að óska henni til hamingju með sigurinn né ræða „praktísk“ mál.

Sólveig Anna hefur sagst vilja að stjórnaskipti í Eflingu fari fram sem allra fyrst.

Til þess að Sólveig Anna og B-listi geti tekið við völdum þarf aðalfundur Eflingar að fara fram. Þann 12. nóvember síðastliðinn ályktaði trúnaðarráð Eflingar að flýta skyldi kosningum til stjórnar og aðalfundi. Kosningar skyldu fara fram fyrir 15. febrúar og aðalfundur fyrir 15. mars. Kosningar fóru fram á þriðjudag 15. febrúar. 

Sólveig Anna fór sem áður segir með sigur af hólmi og nú er hana og félaga hennar á B-lista farið að lengja eftir aðalfundi og valdaskiptum.

Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Sólveig Anna að sitjandi formaður og varaformaður fari ekki að vilja trúnaðarráðs með því að hafa ekki upplýst um það hvenær aðalfundur fari fram.

„Í stað þess að hegða sér með sómasamlegum hætti í kjölfar lýðræðislegra kosninga og í samræmi við það embætti sem hún gegnir er varaformaður Eflingar, Ólöf Helga Adolfsdóttir, í rökræðum á samfélagsmiðlum um það afhverju hún ætlar sér ekki að framfylgja vilja trúnaðarráðs félagsins, æðsta valds í málefnum félagsins á milli félagsfunda,“ segir Sólveig Anna.

Í ljósi þeirrar stöðu hafi B-listi falið lögmanni að senda sitjandi formanni, Agnieszku Ewu Ziolkowska, bréf þar sem óskað er eftir því að upplýst hvenær fyrirhugað sé að halda aðalfund.

Bréfið má sjá hér að neðan:


Tengdar fréttir

Sól­veig Anna aftur kjörin for­maður Eflingar

Sólveig Anna Jónsdóttir og Baráttulistinn bar sigur úr býtum í stjórnarkjöri Eflingar sem lauk í kvöld með yfir helmingi atkvæða. Tekur hún því við formannsstól verkalýðsfélagsins í annað sinn en hún sagði af sér í október síðastliðnum í kjölfar vantraustsyfirlýsingar frá starfsfólki Eflingar.

Sólveig Anna segir samstarfið undir starfsmönnum Eflingar komið

Sólveig Anna Jónsdóttir vonar að starfsfólk skrifstofu Eflingar skilji hvað felist í því að hún mæti á ný til forystu með endurnýjað umboð félagsfólks. Hún fái vonandi vinnufrið til að hefja undirbúning að gerð komandi kjarasamninga. Framhaldið sé undir starfsfólki komið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×