Innherji

Sameiningar myndu fækka kjörnum fulltrúum og lækka launakostnað

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Svanhildur Hólm er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Svanhildur Hólm er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Kosið er um sameiningu í tíu sveitarfélögum á næstu vikum. Samkvæmt nýrri úttekt Viðskiptaráðs gæti kjörnum fulltrúum fækkað um 27 og hagræðing í launakostnaði numið um 200 milljónum á næsta kjörtímabili ef af sameiningunum verður.

Viðskiptaráð Íslands hefur tekið saman í úttekt þá hagræðingu sem gæti hlotist af fyrirhuguðum sameiningum sveitarfélaga sem kosið verður um á allra næstu vikum. Kosið verður í sex sveitarfélögum þann 19. febrúar og fjórum þann 26. mars næstkomandi en sameiningartillögurnar eru alls fimm.

Sveitarfélögin sem um eru að ræða eru Húnavatnshreppur og Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur, Snæfellsbær og Eyja- og Miklaholtshreppur, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð og Helgafellssveit og Stykkishólmsbær.

Ef allar sameiningarnar myndu ganga eftir gæti kjörnum fulltrúum fækkað um 27 og hagræðing í launakostnaði sveitarstjóra og sveitarstjórna numið um 200 milljónum króna á næsta kjörtímabili. 

„Til að setja fækkunina í samhengi má geta þess að fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur eru 23 og samsvarar fækkun fulltrúa á landsbyggðinni því allri borgarstjórn og vel það,” segir í úttekt VÍ.

Sameiningarátak skilað sér í öflugri sveitarfélögum

Í úttektinni kemur enn fremur fram að árið 2005 hafi verið ráðist í sameiningarátak sveitarfélaga. Átakið hafi skilað sér í fjölmennari og öflugri sveitarfélögum en síðan þá hafi hægst verulega á sameiningum.

„Engar sameiningar áttu sér stað árin 2012–2017. Sameiningarátak árin 1992–1994 og 2004–2006, auk tilfærslu reksturs grunnskóla til sveitarfélaga árið 1996, hafði þau áhrif að sveitarfélögum fækkaði úr 201 í 79.”

Þingsályktun um stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga sem samþykkt var árið 2020, auk breytinga á sveitarstjórnarlögum, fela í sér aukinn stuðning við sameiningu sveitarfélaga í formi sameiningarframlaga, meðal annars vegna endurskipulagningar og innleiðingarkostnaðar við stjórnsýslubreytingar. 

Þá er hægt að sækja sérstakt skuldajöfnunarframlag til að jafna skuldir milli sveitarfélaga auk byggðaframlags, sem tekur mið af íbúaþróun síðustu fimm ára.

Tillögur um sameiningu hafa ekki verið fleiri frá árinu 2006 og fram undan gætu því verið miklar breytingar á sveitarstjórnarstiginu. Viðskiptaráð telur þetta til marks um að fjárhagslegir hvatar séu að virka til fækkunar sveitarfélaga.

Framlög vegna sameininga gætu numið þremur milljörðum króna

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir framlög vegna sameininga og gætu þau numið alls þremur milljörðum króna ef þær yrðu allar samþykktar. 

Sameiningarframlögum skal ekki rugla við árleg framlög Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga og þau eru til jöfnunar á mismunandi tekjumöguleikum og útgjaldaþörf.

„Sjóðurinn hefur skuldbundið sig til að greiða allt að fimmtán milljarða á næstu fimmtán árum í slík verkefni. Hann greiðir nú þegar framlög vegna sameiningar Suðurnesjabæjar og Múlaþings en framlög vegna sameiningar Skútustaðarhrepps og Þingeyjarsveitar verða greidd eftir sveitarstjórnarkosningar 2022. Því gæti reynt á hámarksgreiðslu um milljarð á ári eftir því hvernig úthlutunum nýrra verkefna verður háttað," segir í úttekt Viðskiptaráðs.

Í tillögunum sem kosið verður um á næstu vikum nema sameiningarframlög um 330 þúsund krónur á íbúa að meðaltali en í þremur fámennari sveitarfélögum nema sameiningarframlög meira en 1,2 milljón króna á hvern íbúa.

Fjárhagslegir hvatar til sameininga séu skref í rétta átt

Viðskiptaráð telur fjárhagslegan stuðning við sameiningu sveitarfélaga í formi sameiningarframlaga vera skref í rétta átt. 

„En núverandi fyrirkomulag Jöfnunarsjóðsins dregur úr hvötum til sameiningar og hagræðingar í rekstri. Sameiningarframlögum skal ekki rugla við árleg framlög Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga og þau eru til jöfnunar á mismunandi tekjumöguleikum og útgjaldaþörf. Dæmi eru um að þessi árlegu framlög nemi um eða yfir 50 prósent af rekstrartekjum þeirra."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×