Innherji

Frekari bankaskattur kemur atvinnulífinu spánskt fyrir sjónir

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Anna Hrefna Ingimundardóttir er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Ari Fenger er stjórnarformaður Viðskiptaráðs. Þau eru ósammála hugmyndum um frekari bankaskatt.
Anna Hrefna Ingimundardóttir er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Ari Fenger er stjórnarformaður Viðskiptaráðs. Þau eru ósammála hugmyndum um frekari bankaskatt.

Forstöðumaður efnahagssviðs SA og stjórnarformaður Viðskiptaráðs eru sammála um að hugmyndir Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra um að leggja sérstakan, frekari skatt á fjármálafyrirtæki gangi gegn yfirlýstum markmiðum ráðherrans með aðgerðinni. Yfirvöld vilji ólíklega rýra virði eignarhlutar síns í fjármálakerfinu þegar sala á frekari hlut ríkisins í Íslandsbanka er framundan.

„Það er vandséð hvernig hærri bankaskattur myndi bæta hag heimilanna,” segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Fjármálakerfið búi nú þegar við sérstakar álögur umfram aðrar atvinnugreinar.

„Slíkar álögur eru einmitt til þess fallnar að auka kostnað viðskiptavina bankanna í formi aukins vaxtamunar, það er munar á innláns- og útlánsvöxtum. Það bitnar helst á einstaklingum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem geta ekki auðveldlega leitað annað þegar kemur að fjármögnun,” segir hún.

Um sé að ræða umtalsverða skattlagningu umfram önnur fyrirtæki en nú séu þrír sérstakir skattar lagðir á fjármálafyrirtæki sem hvorki þekkist hjá samkeppnisaðilum í nágrannalöndum né öðrum vestrænum ríkjum, að sögn stjórnarformanns Viðskiptaráðs.

„Bankaskatturinn hér á landi er nú þegar mun hærri en þekkist meðal nágrannaþjóða og því eru hugmyndir viðskiptaráðherra til þess fallnar að draga úr samkeppnishæfni fjármálamarkaðarins hér heima,” segir Ari Fenger, stjórnarformaður VÍ.

Það bitnar helst á einstaklingum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem geta ekki auðveldlega leitað annað þegar kemur að fjármögnun

Fjármálaþjónusta verði dýrari en ella

Slíkar hugmyndir vinni þvert á markmið um að lækka vaxtakostnað heimilanna, segir Ari. „Bankaskatturinn gerir að öðru óbreyttu fjármálaþjónustu dýrari en ella. Bankarnir varðveita innlán og skuldir og veita á móti útlán til að ávaxta sparnað landsmanna. Hugmyndir um bankaskatt sem leggst á innlán og skuldir munu óumflýjanlega reka fleyg milli útlánavaxta og innlánavaxta sem leiðir af sér hærri útlánavexti og/eða rýrir ávöxtun sparnaðar heimilanna,” segir hann.

Líkt og kom fram í nýlegri greiningu Viðskiptaráðs er margt sem bendir til þess að staða heimilanna sé mun sterkari en haldið hefur verið fram og í raun mun betri en búast hefði mátt við í heimsfaraldri.

„Kaupmáttur heimilanna hefur aukist og engar vísbendingar eru um aukin vanskil heimilanna. Þá hafa skuldir heimilanna einungis vaxið um 5 prósent umfram vöxt ráðstöfunartekna frá árinu 2019 en auk þess er vert að nefna að skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eru með þeim lægstu sem þekkjast meðal nágrannaþjóða. Þá ber auk þess að nefna að eftir vaxtahækkunina í síðustu viku eru vextir nú þeir sömu og við upphaf faraldursins og mun lægri en hefur tíðkast,” segir hann.

Yfirvöld vilji ólíklega rýra virði eignarhlutar síns í fjármálakerfinu

Þá ætti að vera ljóst að sértækir skattar á fjármálafyrirtæki sem þegar séu þeir hæstu í Evrópu hér á landi, skerði samkeppnisstöðu bankakerfisins. „Yfirvöld vilja ólíklega rýra virði eignarhlutar síns í fjármálakerfinu einmitt þegar ákveðið hefur verið að ráðast í sölu á frekari hlut í Íslandsbanka,” segir Anna Hrefna.

Ari segir bankaskatt draga úr samkeppnishæfni bankanna þar sem kostnaður þeirra við að veita fjármálaþjónustu eykst. „Auk þess rýrir hann samkeppnisstöðu gagnvart lífeyrissjóðum þar sem þeir greiða ekki slíkan skatt og geta því að öllu óbreyttu boðið lægri útlánavexti í flestum tilvikum, líkt og má sjá á samanburðartöflu aurbjargar. Þar að auki krefjast lífeyrissjóðirnir að lántaki hafi meira eigið fé á milli handanna þar sem veðhlutfall þeirra er almennt lægra en bankarnir bjóða upp á,” segir hann.

Yfirvöld vilja ólíklega rýra virði eignarhlutar síns í fjármálakerfinu einmitt þegar ákveðið hefur verið að ráðast í sölu á frekari hlut í Íslandsbanka,

Markmið vaxtahækkana Seðlabanka Íslands sé að slá á þenslu og verðbólgu í hagkerfinu en tillögur um opinberar aðgerðir eru til þess að draga úr áhrifum slíkra aðgerða og til þess fallnar að valda meiri og þrálátari verðbólgu en ella. 

„Slíkt gæti þrýst á Seðlabankann að hækka vexti enn meira en upphafleg þörf var á,” segir Ari að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×