Erlent

Bólusetning virðist vernda gegn langvinnu Covid

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rannsóknir þykja gefa til kynna að bólusetningar verndi ekki bara gegn alvarlegum veikindum heldur einnig gegn langvinnum veikindum.
Rannsóknir þykja gefa til kynna að bólusetningar verndi ekki bara gegn alvarlegum veikindum heldur einnig gegn langvinnum veikindum. epa/Jose Mendez

Heilbrigðisöryggisstofnun Bretlands hefur yfirfarið fjölda breskra og alþjóðlegra rannsókna um áhrif bóluefna á svokölluðu langvinnu Covid og komist að þeirri niðurstöðu að bólusetning virðist veita ákveðna vörn. 

Á þetta bæði við um þá sem voru bólusettir áður en þeir greindust með Covid-19 og þá sem voru bólusettir eftir að þeir höfðu fengið sjúkdóminn og langvinna fylgifiska hans.

Niðurstöðurnar eru byggðar á fimmtán rannsóknum þar sem ofangreint var skoðað. Samkvæmt tveimur rannsóknum reyndust þeir sem höfðu verið fullbólusettir vera minna líklegir en óbólusettir til að þjást af fjölda langvarand einkennum; til að mynda þreytu, höfuðverkjum, máttleysi í hand- og fótleggjum, vöðvaverkjum, svima, andþyngslum og breyttu lyktarskyni.

Þá voru einnig vísbendingar um að þeir sem höfðu fengið Covid-19 þegar þeir voru óbólusettir og verið með einkenni til lengri tíma, fundu fyrir vægari eða færri einkennum eftir að þeir voru svo bólusettir.

Þess ber þó að geta að hjá sumum versnuðu einkennin við bólusetningu.

Sérfræðingar segja mögulegt að bóluefnin aðstoði líkamann við að losa sig við leifar af kórónuveirunni en annar möguleiki er að bólusetningin komi jafnvægi á ónæmisviðbrögð líkamans hjá þeim sem sýna einkenni vegna ofsvörunar ónæmiskerfisins.

Þetta samspil bóluefnisins og ónæmiskerfisins kann einnig að vera orsök þess að einkenni sumra versna.

Stephen Powis, yfirlæknir NHS á Englandi, fagnar niðurstöðunum og segir þær þarfa áminningu um mikilvægi bólusetninga nú þegar fleiri en 10 þúsund manns séu inniliggjandi vegna Covid á Bretlandseyjum.

Guardian greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×