Innlent

Þing­valla­vegi lokað vegna að­gerða á fimmtu­dag og föstu­dag

Þingvallavegur verður lokaður frá klukkan átta og fram eftir degi á fimmtudag og föstudag.
Þingvallavegur verður lokaður frá klukkan átta og fram eftir degi á fimmtudag og föstudag. Vísir/Vilhelm

Þingvallavegur verður lokaður fyrir alla almenna umferð á fimmtudag og föstudag frá klukkan átta á morgnanna og fram eftir degi, á meðan aðgerðir viðbragðsaðila standa þar yfir. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Gert er ráð fyrir að fimmtíu til sextíu manns muni taka þátt í aðgeðrum við Þingvallavatn á morgun. Þar á meðal verða sextán kafarar á vegum Landhelgisgæslunnar, sérsveitar ríkislögrelgustjóra og slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins  ásamt fólki frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og lögreglunni á Suðurlandi. 

Um er að ræða flókna og umfangsmikla aðgerð en lík farþeganna sem fórust um borð í flugvélinni TF-ABB á fimmtudag eru nú á minnst 35 metra dýpi og flugvélaflakið á tæplega 50 metra dýpi. 

Í dag hafa viðbragðsaðilar verið að setja upp vinnubúðir og aðstöðu við vatnið fyrir viðbragðsaðila. Verið er að setja þar upp þrjú tjöld, rafstöðvar, lendingarstað fyrir þyrlu Landhelgisgæslunnar og afþrýstiklefa fyrir kafara. 

Fram kemur í tilkynningu lögreglunnar að ytri lokunarpóstar, sem settir verða upp í fyrramálið, verði við afleggjarann að Steingrímsstöð og við Veiðilund, þannig að umferð verði ekki hleypt að Steingrímsstöð. Fyrir utan viðbragðsaðila munu einungis fjölmiðlamenn fá að fara inn fyrir ytri lokun og verða þeir að geta framvísað blaðamannapassa við komuna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×