Enski boltinn

Pabbi Harveys Elliott að springa úr stolti þegar hann sá soninn skora fyrsta markið fyrir Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elliott-feðgar voru sáttir í gær.
Elliott-feðgar voru sáttir í gær. getty/Chris Brunskill

Faðir Harveys Elliott réði sér ekki fyrir kæti þegar hann sá son sinn skora sitt fyrsta mark fyrir Liverpool í endurkomuleik sínum gegn Cardiff City í ensku bikarkeppninni í gær.

Elliott lék sinn fyrsta leik fyrir Liverpool í gær eftir fimm mánaða fjarveru vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik gegn Leeds United.

Elliott kom inn á sem varamaður á 58. mínútu í leiknum gegn Cardiff í gær, á sama tíma og nýjasti leikmaður Liverpool, Luis Diaz.

Á 76. mínútu skoraði Elliott svo með góðu skoti og kom Liverpool í 3-0. Þetta var hans fyrsta mark fyrir félagið og það fyrir framan Kop-hluta stúkunnar á Anfield.

Elliott var að vonum sáttur með markið en enginn var þó ánægaðri með það en pabbi hans sem hreinlega grét af gleði. Viðbrögð hans má sjá hér fyrir neðan.

Elliott byrjaði tímabilið af miklum krafti og virtist vera búinn að vinna sér inn sæti í byrjunarliði Liverpool áður en hann meiddist í leiknum gegn Leeds 12. september síðastliðinn.

Á síðasta tímabili lék Elliott sem lánsmaður með Blackburn Rovers. Hann skoraði sjö mörk fyrir liðið í ensku B-deildinni og lagði upp ellefu.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×